- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kveðja frá handknattleiksdeild Fjölnis

Fyrsti sigur Fjölnis í Olísdeildinni, 26. nóvember 2017 undir stjórn Arnars Gunnarssonar. Ljósmynd/Þorgils G.
- Auglýsing -

Aðsend grein frá handknattleiksdeild Fjölnis.

—————

Kæra fjölskylda og vinir Stefáns Arnars Gunnarssonar.

Kæri Addi!

Þú komst til félagsins vorið 2014. Þitt hlutverk var að taka við ungu liði sem saman stóð að mestu af uppöldum Fjölnismönnum og stýra liðinu upp á næsta stig. Það tókst þér svo sannarlega að gera. Það eru enn rifjuð reglulega upp úrslitaeinvígin sem háð voru vorin 2015 og 2016, þvílík var stemningin, þvílíkt var fjörið. Vorið 2017 vann liðið svo Grill deildina og tryggði sér sæti í Olís deildinni í fyrsta sinn og ekki var gleðin minni þá.

Þú lést oft í þér heyra, hvort sem var innan vallar eða utan, við leikmenn eða stjórn deildarinnar. Þú gagnrýndir það sem ekki var nógu gott, barðist fyrir betri aðstöðu fyrir deildina og hafðir gríðarlegan metnað fyrir liðinu. Það féll ekki vel í kramið hjá öllum eins og gerist og gengur.

Þú varst að sama skapi mikill leiðbeinandi fyrir unga og upprennandi handknattleiksmenn, jafnt innan vallar sem utan. Þeir hugsa til þín með hlýju og eru eftirfarandi ummæli leikmanna um þig, dæmi um það:

• Addi var frábær þjálfari, drífandi metnaðarfullur og með mikla leiðtogahæfileika.

• Addi lagði ekki bara metnað sinn í það að við Fjölnismenn værum góðir handboltamenn hvort sem það væri tæknilega eða hversu sterkir við værum heldur óskaði hann þess heitast að við næðum árangri í lífinu.

• Hann vildi að við myndum leggja allan okkar metnað í að stunda námið okkar og kom ekkert annað til greina hjá honum en að við kláruðum skólann meðfram handboltanum.

• Addi var fljótur að grípa inn í þegar hann sá að okkur leið illa eða áttum erfiða daga og hvatti okkur til dáða að halda áfram og einbeita okkur að styrkleikum og vinna í veikleikunum.

• Addi var einstaklega góður hlustandi og reyndist okkur öllum mjög vel í persónulegum verkefnum.

• Addi samgladdist okkur líka vel og innilega þegar okkur gekk vel og hurfum jafnvel á braut í annað félag og heyrði reglulega í okkur til að kanna hvernig við hefðum það.

Þá hugsa foreldrar líka til þín með hlýju og er eftirfarandi haft eftir móður leikmanns sem þú þjálfaðir:

• „Ég mun líklega aldrei gleyma því þegar Addi hafði samband á laugardegi um verslunarmannahelgi og tjáði mér að hann hefði áhyggjur af því að tveir leikmenn væru að leggja son minn í einelti. Addi sagðist myndu fylgjast með þessu á og í kringum æfingar og leiki en vildi upplýsa mig um stöðuna. Addi tæklaði þetta mál svo með samtölum við piltana svo úr leystist farsællega.“

Brotthvarf þitt frá félaginu var því miður ekki til fyrirmyndar. Það varð uppþot sem margir í handboltaheiminum muna sjálfsagt eftir. Þú lentir þar í hringiðu sem gerði starf þitt klárlega mun erfiðara en það hefði þurft að vera. Orð voru sögð, ákvarðanir teknar sem særðu og þykir okkur það afskaplega miður.

En við sem störfuðum með þér vitum líka að þú ert gríðarleg tilfinningavera en hefur, til að verja þig, reist í kringum þig girðingu sem þú hleyptir ekki mörgum í gegnum en eftir veru þína hjá félaginu eignaðist þú þó vini sem hafa alla tíð staðið með þér.

Við hjá handknattleiksdeild Fjölnis sendum þér hlýju og þökkum fyrir tímann okkar saman. Þú ert einstakur. Handboltaheimurinn verður fátækari án þín.

Kæra fjölskylda og vinir Adda, við hugsum til ykkar á þessum erfiða tíma. Gangi ykkur sem allra best að takast á við þá miklu óvissu og sorg sem ríkir. Við erum öll ríkari að hafa kynnst Adda.

————–

Stefáns Arnars Gunnarssonar handknattleiksþjálfara og kennara hefur verið saknað frá 2. mars.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -