Mikill áhugi er fyrir hendi á meðal Handknattleikssamabanda í Evrópu að vera gestgjafar Evrópumóta landsliða. Þegar hafa 14 þjóðir lýst yfir vilja til þess að halda EM karla og kvenna 2026 og 2028, ýmist einar eða þá í samvinnu við handknattleikssambönd grannþjóða.
Norðurlandaþjóðirnar Danmörk, Noregur og Svíþjóð sækja fast að fá eitthvað af þessum mótum eins og sést hér að neðan. Kannski ekki furða þar sem þeim hefur tekist vel upp með mótahald til þessa sem hefur fært þeim miklar tekjur. Reyndar er ljóst að vegna kórónuveirunnar mun EM kvenna í lok þessa árs ekki verða Norðmönnum og Dönum sú gullkista sem vonast var til.
Eftirtaldir hafa sent inn óskir um að halda EM 2026 karla sem fram fer frá 15. janúar til 1. febrúar:
Hvíta-Rússland/Litháen/Pólland
Króatía
Frakkland
Noregur/Danmörk
Svíþjóð
Sviss
EM karla 2028 sem ráðgert er að fari fram 13. -30. janúar:
Belgía
Króatía
Eistland
Frakkland
Noregur/Danmörk
Portúgal/Spánn
Sviss
Svíþjóð
EM kvenna 2026 sem haldið verður 26. nóvember til 13. desember:
Noregur/Danmörk
Rússland
Svíþjóð
EM kvenna 2028 sem standa á yfir frá 30. nóvember til 17. desember:
Noregur/Danmörk
Svíþjóð
Hinn 1. maí á næsta ári verður EHF að hafa lokið við að fara yfir umsóknir og gefa umsögn hvort umsóknir uppfylli skilyrði. Á þingi EHF í nóvember á næsta ári verður síðan gengið til atkvæða um hverjir hreppi hnossið.
Næst í austurhluta Evrópu
EM karla 2022 fer fram í Ungverjalandi og Slóvakíu 13. til 30. janúar.
EM kvenna 2022 verður haldið í Slóveníu, Norður-Makedóníu og Svartfjallalandi 4. til 20. nóvember – haldið í nóvember vegna HM karla í knattspyrnu sem á að fara fram í seinni hluta nóvember og í desember í Katar.
EM karla 2024 verður í Þýskalandi 12. til 28. janúar.
EM kvenna 2024 verður í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi 28. nóvember til 15. desember. Þá verða þátttökulið í fyrsta sinn frá 24 þátttökuþjóðum.
EM karla 2020 sem haldið var í Austurríki, Noregi og Svíþjóð í upphafi þessa árs og var það fyrsta þar sem lið frá 24 þjóðum tóku þátt heppnaðist afar vel en það var einnig fyrsta karlamótið sem var haldið í fleiri en einu landi. Ríflega hálf milljón áhorfenda mætti á kappleiki mótsins og milljónir fylgdust með í sjónvarpi eða þá í gegnum netið, segir m.a. í tilkynningu frá Handknattleikssambandi Evrópu.