- Auglýsing -
- Auglýsing -

Refirnir frá Berlín voru sterkastir í Flensborg

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Þýska handknattleiksliðið Füchse Berlin vann í dag Evrópudeildina í handknattleik karla með öruggum sigri á Granollers frá Spáni, 36:31, í úrslitaleik sem fram fór í Flens-Arena í Flensborg í Þýskalandi. Göppingen, sem sló Val úr keppni í 16-liða úrslitum, krækti í bronsverðlaunin. Göppingen lagði franska liðið Montpellier, 33:29, í leik sem fram fór á undanúrslitaleik Füchse Berlin og Granollers. Göppingen var marki undir í hálfleik, 17:16.

Fimm mörk í röð hjá Füchse Berlin í fyrri hálfleik lagði grunn að sigrinum í úrslitaleiknum. Á þeim kafla breytti liðið stöðunni úr 8:9 í 13:9. Staðan í hálfleik var 16:12.


Fljótlega í síðari hálfleik kom í ljós að leikmenn Granollers voru orðnir þreklitlir. Þýska liðið gekk á lagið og jók forskotið áður en það slakaði aðeins á klónni undir lokin.

Þetta er í þriðja sinn sem Füchse Berlin vinnur Evrópudeildina í handknattleik karla eða forvera hennar. Átta ár eru liðin frá fyrsta sigrinum undir stjórn Dags Sigurðssonar. Þremur árum síðar vann liðið keppnina á nýjan leik en hún gekk þá undir heitinu EHF-bikarinn.

Unnu 15 af 16 leikjum

Alls vann Füchse Berlin 15 af 16 leikjum sínum í keppninni. Tapaði einni viðureign fyrir Aðalsteini Eyjólfssyni og félögum í Kadetten Schaffhausen í átta liða úrslitum. Tapið kom ekki að sök þar sem Berlínarrefirnir unnu síðari viðureignina með meiri mun en sem nam tapinu í Sviss.

Daninn Lasse Andersson skoraði átta mörk fyrir Füchse Berlin í úrslitaleiknum í dag. Fabian Wiede átti stórleik með sex mörk í sex skotum. Skal engan undra að Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands leggi ríka áherslu á að Wiede gefi kost á sér á ný í landsliðið. Hans Lindberg skoraði sex mörk og landi hans Mathias Gidsel skoraði í fimm skipti.

Joaquin Salinas Muñoz og Antonio Robledo skoruðu sjö mörk hvor fyrir Granollers.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -