Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik varð fyrir því óláni að slita liðband í ökkla á æfingu hjá þýska liðinu Blomberg-Lippe á föstudaginn. Þar af leiðandi lék hún ekki með þýska liðinu í fyrri viðureigninni við Val í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á síðasta laugardag.
Andrea er þar með komin í kapphlaup við tímann vegna þátttöku á heimsmeistaramótinu sem hefst í Þýskalandi miðvikudaginn 26. nóvember, eftir tvær vikur.
Andrea staðfesti ótíðindin við handbolta.is í dag. Við skoðun á mánudaginn hafi komið í ljós að liðbandi væri slitið í öðrum ökklanum. Framundan væri að bíða og vonast eftir góðum bata á næstu vikum.
Arnar veltir stöðunni fyrir sér
Arnar Pétursson landsliðsþjálfari handknattleik sagði við handbolta.is að reikna megi með að hann kalli 17. leikmanninn inn í hópinn. Hver það yrði sagðist Arnar eiga eftir að gera upp við sig enda væri að ýmsu að hyggja. Hinsvegar væri ekki ástæða til þess að afskrifa þátttöku Andreu með landsliðinu á HM.
Landsliðið kemur saman til æfinga strax eftir næstu helgi.
Fjórar fara á stórmót í fyrsta sinn – HM-hópurinn valinn




