- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mosfellingar gerðu hvert axarskaftið eftir annað og Framarar þökkuðu fyrir

Leikmenn Fram fagna ævintýralegaum sigri sínum á Varmá í kvöld. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Fram stökk upp í þriðja sæti Olísdeildar karla í kvöld með hreint ævintýralegum sigri á Aftureldingu, 30:29, í íþróttahúsinu á Varmá í kvöld. Mosfellingar virtust með góð tök á leiknum og fimm marka forskot þegar 13 mínútur voru til leiksloka, 24:19. Þeir áttu meira að segja sókn í þeirri stöðu. Í stað þess að auka forskotið og leggja grunn að sigrinum gerðu Mosfellingar hvert axarskaftið eftir annað. Slíkt kunni ekki góðri lukku að stýra. Leikmenn Fram létu sér það hinsvegar vel líka og skoruðu 11 mörk á síðustu 12 mínútunum þökkuðu fyrir stigin tvö.


Þar með hefur Fram unnið báðar viðureignir sínar við Aftureldingu á keppnistímabilinu á ævintýralegan hátt.

Staðan í Olísdeild karla.


Afturelding var sterkari í fyrri hálfleik og var tveimur mörkum yfir að honum loknum, 16:14. Klaufaskapur kom í veg fyrir að forskotið var ekki meira eftir 30 mínútna leik.

Kátt á hjalla hjá leikmönnum Fram á Varmá í kvöld. Mynd/Raggi Óla


Framan af síðari hálfleik fóru Framarar illa að ráði sínu lengi vel. Þeir virtust vera að missa Aftureldingu langt fram úr sér áður en viðsnúningurinn varð. Fram breytti yfir í 5/1 vörn. Hvort sem það var hún eða eitthvað annað sem sló leikmenn Aftureldingar og þjálfara alveg út af laginu skal ósagt látið. Alltént féll þeim allur ketill í eld og fóru tómhentir til síns heima.


Framarar fóru með sigurbros á vör út í élið fyrir utan íþróttahúsið á Varmá.


Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 6, Árni Bragi Eyjólfsson 5, Einar Ingi Hrafnsson 5, Ihor Kopyshynskyi 4, Gestur Ólafur Ingvarsson 3, Birkir Benediktsson 2, Blær Hinriksson 2, Bergvin Þór Gíslason1, Böðvar Páll Ásgeirsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 11.
Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 7, Ívar Logi Styrmisson 5, Stefán Darri Þórsson 4, Marko Coric 4, Stefán Orri Arnalds 3, Ólafur Brim Stefánsson 2, Luka Vukicevic 2, Breki Dagsson 2, Kjartan Þór Júlíusson 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 4, Magnús Gunnar Erlendsson 3.

Handbolti.is var á Varmá og fylgdist með leiknum í textalýsingu í hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -