Kristján Örn Kristjánsson, Donni, átti stórleik í gærkvöld þegar lið hans, Skanderborg, vann sögulegan sigur í þriðju umferð Evrópudeildar karla í handknattleik á rúmenska liðinu, Minaur Baia Mare, 45:27. Donni skoraði 10 mörk og átti fjórar stoðsendingar í leik sem fer í sögubækur danska liðsins vegna þess að markamet var slegið. Aldrei fyrr hefur Skanderborg-liðið skorað jafn mörg mörk.
Minaur Baia Mare, sem sló Stjörnuna naumlega út í vítakeppni í forkeppni Evrópudeildarinnar, rekur lestina í C-riðli með eitt stig að loknum þremur umferðum. Skanderborg trónir á toppnum með fullt hús stiga og þarf aðeins einn sigur til viðbótar til að eiga sæti víst í 16-liða úrslitum sem einnig verður leikin í riðlum.

Þorsteinn lét til sín taka
Þorsteinn Leó Gunnarsson og liðsfélagar í FC Porto eru í efsta sæti D-riðils Evrópudeildarinnar eftir þriðja sigurinn í gær. Að þessu sinni vann Porto norska meistaraliðið Elverum, 29:25, er leikið var í Terningen Arena í Elverum.
Þorsteinn Leó skoraði 9 mörk og gaf þrjár stoðsendingar.

Arnar Freyr markahæstur
Í E-riðli trónir þýska liðið MT Melsungen á toppnum með sex stig. Arnar Freyr Arnarsson var markahæstur hjá liðinu í öruggum sigri, 33:27, á FTC-Green Collect frá Ungverjalanndi er leikið var í Kassel í Þýskalandi.
Benfica, með Stiven Tobar Valencia innanborðs vann HF Karlskrona í hörkuleik í Karlskrona, 34:32. Stiven skoraði eitt mark.
Arnór Viðarsson lét til sín taka jafnt í vörn sem sókn hjá Karlskrona-liðinu og skoraði m.a. fjögur mörk og gaf tvær stoðsendingar. Karlskrona, sem er að taka þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn síðan á níunda áratug síðustu aldar, er neðst í riðlinum án stiga en hefur leikið jafna leiki og tapað með samtals fimm marka mun í leikjunum þremur. Segir það margt um hversu jafnir leikir liðsins hafa verið.
Einar Bragi og félagar unnu Vardar
Annað sænskt lið sem Íslendingur kemur við sögu hjá, IFK Kristianstad, er efst í F-riðli með fimm stig. IFK vann Vardar Skopje í Kristianstad Arena. Axel Månsson skoraði sigurmarkið átta sekúndum fyrir leikslok.
Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu í sigurleiknum góða.
Vardar er í öðru sæti, stigi á eftir IFK. Liðin mætast í Skopje í næstu viku.
Heiðmar fagnaði – Birgir tapaði
Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari þýska liðsins Hannover-Burgdorf sem lagði IK Sävehof, 27:25, á heimavelli og er þar af leiðandi áfram í efsta sæti G-riðils með sex stig.

Birgir Steinn Jónsson skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu fyrir sænska liðið sem hefur tvö stig að loknum þremur viðureignum og verður væntanlega í baráttu við Fredericia HK um annað sæti riðilsins þótt vissulega sé ekki hægt að útiloka að neðsta liðið, Tatran Presov, blandi sér í baráttuna á endasprettinum.
Fredericia HK vann Tatran Presov í gærkvöld, 34:27, í Slóvakíu. Úrslitin eru ekki sístáhugaverð í ljósi þess að Presov tapar ekki oft á sterkum heimavelli sínum. Það hafa íslensk félagslið m.a. fengið að reyna á undanförnum árum.
Þar á ofan hefur Fredericia HK-liðið verið í töluverðu basli á leiktíðinni sem m.a. leiddi til þess að Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari var leystur frá störfum síðla í september.

Hörkubarátta hjá Óðni Þór
Óðinn Þór Ríkharðsson og liðsfélagar í svissneska meistaraliðinu Kadetten Schaffhausen eru í hörkukeppni í H-riðli þar sem ómögulegt er að spá fyrir um framhaldið. Luka Maros tryggði Kadetten sigur á RK Nexe, 30:29, í Króatíu í gær í æsispennandi leik.
Óðinn Þór skoraði fjögur mörk í leiknum, þar á meðal kom hann liðinu yfir úr vítakasti, 28:27, þegar skammt var eftir.
Liðin mætast á ný í BBC Arena í Schaffhausen á næsta þriðjudag og gætu úrslit þess leiks haft töluverð um það að segja hvort liðið kemst áfram í 16-liða úrslit þótt þá verði enn tvær umferðir eftir.





