Ásbjörn Friðriksson og Rakel Dögg Bragadóttir sérfræðingar Handboltahallarinnar fóru yfir árangur kvennalandsliðsins á heimsmeistaramótinu og litu einnig til framtíðar í Handboltahöllinni í gærkvöld sem að þessu sinni var í umsjón Ingvars Arnar Ákasonar.
Mættar til að vinna
„Það var gaman að sjá hvernig íslenska liðið mætti til leiks í viðureignina við Færeyinga. Þær voru svo sannarlega mættar til þess að vinna,“ segir Rakel Dögg sem viðurkenndi að hafa haft kvíðboga fyrir leikinn vegna tapsins fyrir Spáni í leiknum og einnig í ljósi þess að færeyska liðið var með byr í seglum.
„Að ná þessum sigri var andlega mjög gott fyrir liðið,“ segir Rakel Dögg. Ásbjörn tók undir með Rakel. „Ég held að það hafi verið gott fyrir okkur að hafa unnið færeyska liðið í aðdraganda mótsins og vita að þú getur unnið þær,“ segir Ásbjörn.
Góðir og slæmir kaflar
Rakel Dögg segir um mótið í heild að íslenska liðið hafi átt marga góða kafla en einnig hafi verið nokkrir slæmir kaflar og sumir of langir sem hafði orðið þess valdandi að liðið fékk fjögur stig af 12 mögulegum.
Vinna betur úr góðum stöðum
Ásbjörn segir að landsliðið hafi vantað ákveðna landsliðsreynslu til þess að vinna leiki eins og gegn Serbíu og Spáni. „Vonandi fer sú reynsla sem fékkst af þessu móti í reynslubankann þannig að til framtíðar náum við að vinna betur úr þeim stöðum sem komu upp í leikjum til þess að vinna leiki,“ segir Ásbjörn.
„Þora að sækja sigur, eins og til dæmis í Spánarleiknum þar sem við vorum í dauðafæri að ná sigri en síðan hrundi leikurinn,“ segir Rakel Dögg.
„Þær þurfa að læra af þessu móti til þess að vinna jafna leiki,“ bætti Ásbjörn við.
Myndskeið og fleiri vangaveltur Ásbjörns og Rakelar Daggar eru í myndskeiðinu hér fyrir ofan.



