- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kann að meta erfiðið þegar launin eru Íslandsmeistaratitill

Þórey Anna Ásgeirsdóttir í úrslitaleik bikarkeppninnar í mars. Mynd/Kristján Orri Jóhannsson
- Auglýsing -

„Það var ótrúlega gaman að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Við vorum harðákveðnar að ná honum eftir að hafa orðið í öðru sæti bæði í bikarnum og í deildarkeppninni,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir nýkrýndur Íslandsmeistari í handknattleik kvenna með Val í samtali við handbolta.is.

Stolt af viðurkenningunni

Þórey Anna var valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar sem lauk á laugardaginn í Vestmannaeyjum með þriðja sigri Valsliðsins. Þórey Anna varð einnig Íslandsmeistari með Gróttu fyrir sjö árum. „Ég er mjög stolt af viðurkenningunni sem liðsfélagar mínir eiga hlut í. Samherjarnir hjálpa manni að verða betri,“ sagði Þórey Anna.

Þórey Anna er 25 ára gömul og á að baki 32 landsleiki og fjölda leikja með yngri landsliðum Íslands. Hún vakti snemma athygli fyrir hæfileika sína á handknattleiksvellinum. Fimmtán ára gömul lék Þórey Anna með FH við hlið móður sinnar, Gunnar Sveinsdóttur. Síðar lék Þórey Anna í Noregi með Kongsvinger og Rælingen samhliða námi. 
Þórey Anna gekk til liðs við Gróttu 2015 og varð Íslandsmeistari með liðinu vorið 2016. Ári síðan skipti hún yfir til Stjörnunnar og vann bikarkeppnin með Garðabæjarliðinu 2018.  Vorið 2022 vann Þórey Anna bikarkeppnina með Val og nú rúmu ári síðar Íslandsmeistaratitilinn. 

Valur vann úrslitaeinvígið við Val með þremur vinningum gegn engum og hafði talsverða yfirburði í tveimur fyrstu leikjunum. Síðasta viðureignin í Vestmannaeyjum á laugardaginn var jafnari en lauk með eins marks sigri, 25:24, eins og fleiri leikir Vals í úrslitakeppninni að þessu sinni.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir Íslandsmeistari hjá Val og besti leikmaður úrslitakeppni Olísdeildarinnar. Mynd/Sigfús Gunnar

Breiddin skipti sköpum

„Breiddin er meiri í okkar leikmannahópi en hjá ÍBV. Þar munaði sennilega mestu á liðunum þegar upp var staðið. Leikjaálagið er mikið á skömmum tíma. Þreyta og meiðsli segja fljótt til sín og taka toll af leikmönnum og liðum. Þá segir breiddin til sín,“ svaraði Þórey Anna spurð um hverju hefði helst munað á liðunum tveimur sem léku til úrslita að þessu sinni. ÍBV hafði áður unnið bæði deildarkeppnina og bikarkeppninna.

Lögðum hart að okkur

„Liðsheildin er góð hjá okkur. Við erum góðar vinkonur. Það er alltaf gaman á æfingum og í leikjum. Stemningin er góð. Við höfum æft mikið og lagt hart að okkur. Gústi [Ágúst Þór Jóhannsson] hefur haldið okkur við efnið á æfingum og verið óspar á vídeófundina. Maður kann að meta allt þetta erfiði þegar uppskeran er Íslandsmeistaratitill,“ sagði Þórey Anna sem hefur sótt jafnt og þétt í sig veðrið allt þetta tímabil eftir að hafa verið frá keppni nær alla leiktíðini 2021/2022 eftir að hafa eignast barn í september 2021.

Sumarið fór í æfingar

„Ég byrjaði aftur að spila aðeins í febrúar í fyrra. Síðasta sumar fór í að komast í betra líkamlegt form. Maður æfði nær alla daga yfir sumarið. Eftir að keppnistímabilið byrjaði í haust bætti ég mig jafnt og þétt eftir því sem á leið,“ sagði Þórey Anna sem var ekki bara verðlaunuð á laugardaginn heldur einnig í mars og aftur í apríl þegar hún var kölluð inn í landsliðið á nýjan leik.
„Það var bónus og virkilega gaman að koma aftur í þann skemmtilega hóp.“

Þórey Anna hleypur inn á leikvöllinn fyrir viðureignina við Ungverja á Ásvöllum 8. apríl. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Komin á betri stað

Allt er þetta afrakstur mikilla vinnu hjá Þóreyju Önnu. Hún tekur undir það. „Þetta hefur tekið sinn tíma. Ég hef lagt hart að mér að komast aftur á þann stað, ef ekk betri, en ég var á áður en sá litli komi í heiminn.“

Langt, strangt, árangursríkt

Framundan eru aðeins rólegri vikur í handboltanum hjá Þóreyju Önnu. „Gústi hefur ekkert sagt hvenær við fáum frí frá æfingum. Ég reikna með samt að það verði fljótlega. Þá kastar maður aðeins mæðinni áður en farið verður á fullt aftur, þá fyrst í lyftingum og hlaupum. Tímabilið að baki hefur verið langt og strangt en að sama skapi árangursríkt og skemmtilegt,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir Íslandsmeistari með Val.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -