- Auglýsing -
- Auglýsing -

Óðinn Þór með átta mörk að meðaltali – tvennir bræður í fremstu röð

Óðinn Þór Ríkharðsson landsliðsmaður og leikmaður Kadetten í Sviss. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Óðinn Þór Ríkharðsson, hornamaður svissneska meistaraliðsins Kadetten Schaffhausen, er fjórði markahæsti leikmaður Evrópudeildarinnar í handknattleik karla þegar aðeins átta lið eru eftir í keppninni, þar á meðal Kadetten Schaffhausen. Óðinn Þór hefur skorað 89 mörk í 11 leikjum en hann missti af fyrsta leik liðsins í riðlakeppninni í haust. Hann hefur skorað rétt liðlega átta mörk að jafnaði í leik.


Af 30 markahæstu leikmönnum Evrópudeildarinnar hefur enginn nýtt skot sín jafnvel og Óðinn Þór. Hann hefur skorað úr 80,2% skota sinna.


Úkraínumaðurinn Ihor Turchenko er á svipuðu róli og Óðinn Þór þegar litið er til fjölda marka að meðaltali í leik. Turchenko skoraði 97 mörk í 12 leikjum. Hann skorar ekki fleiri vegna þess að lið hans, HC Motor, féll úr leik í gærkvöld.

Ungverjinn er markahæstur

Markahæsti leikmaður Evrópudeildarinnar er Bence Nágy, leikmaður ungverska liðsins FTC, með 99 mörk i 16 leikjum. FTC tók þátt í tveimur umferðum í undankeppninni. FTC er úr leik.

Martim Costa, leikmaður Sporting, er í þriðja sæti. Hann hefur skorað 90 mörk í 14 leikjum. Bróðir hans, Francisco Costa, er fimmti markahæstur með 86 mörk í 14 leikjum.

Ekki einu bræðurnir

Portúgölsku Costa-bræðurnir eru svo sannarlega ekki einu bræðurnir sem eru á lista yfir 30 markahæstu leikmenn Evrópudeildinnar. Þar er einnig að finna Óskars- og Örnusynina, Arnór Snæ og Benedikt Gunnar.

Bræðurnir Benedikt Gunnar og Arnór Snær Óskarssynir hafa verið öflugir með Val á keppnistímabilinu. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Arnór Snær er í 15. sæti með 65 mörk í 12 leikjum með 63,1% skotnýtingu. Benedik Gunnar er í 29. sæti ásamt þýska landsliðsmanninum Marcel Schiller hjá Göppingen, með 57 mörk. Benedikt Gunnar var ekki með Val í gær vegna meðsla.

Skotnýting Benedikts Gunnars er 62,6%. Bræðurnir hafa hvor um sig skorað að jafnaði rétt rúmlega fimm mörk í leik. Ótaldar eru stoðsendingar þeirra.

Stiven Tobar Valencia hefur svo sannarlega slegið í gegn í vetur. Mynd/Hafliði Breiðfjörð


Fleiri Valsmenn eru á skrá yfir 30 markahæstu leikmennina. Stiven Tobar Valencia er í 28. sæti með 59 mörk í 12 leikjum, 74,7% skotnýtingu.

Úrslit 16-liða úrslita í gærkvöld og hvaða lið mætast í átta liða úrslitum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -