- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Stóðum okkur eins og hetjur

Þórey Anna Ásgeirsdóttir að skora eitt marka sinn í úrslitaleiknum. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


„Fyrstu viðbrögð eftir leikinn voru að ég var uppgefin og fór grenja. Ég trúði þessu varla,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir leikmaður Evrópubikarmeistarar Val og markadrottning Evrópubikarkeppninnar þegar handbolti.is hitti hana að máli í sigurgleðinni á Hlíðarenda eftir sigurleikinn á spænska liðinu BM Porrino, 25:24.

Þórey Anna skoraði 83 mörk í 12 leikjum Vals í Evrópudeildinni og varð markahæsti leikmaður keppninnar. Micaela Casasola leikmaður BM Porriño var næst á eftir með 65 mörk.

Leikurinn var spennandi á loka mínútunum eftir að Valur hafði sjö marka forskot, 23:16, þegar níu mínútur voru eftir.

„Auðvitað þurftum við að gera leikinn spennandi í lokin í stað þess að halda þessu í sjö mörkum,“ sagði Þórey Anna glettin á svip.

Sofnuðum á verðinum

„Maður var farin að hugsa um að við værum búnar að vinna en þá gerðu þær áhlaup. Segja má að við höfum sofnað á verðinum,“ sagði Þórey Anna um lokakaflann þegar litlu mátti muna að leikmenn Porrino jöfnuðu metin.

„Þetta er stærsti leikurinn sem ég hef leikið á mínum ferli. Reynslan og lærdómurinn er mikill hvernig stýra á tilhlökkun, stressi rétt. Mér fannst við gera það vel. Við stóðum okkur eins og hetjur,“ sagði Þórey Anna og bætti við að síðustu tvær vikur hafi verið sérstakar þegar úrslitsleikirnir tveir voru efstir á blaði.

Bið og aftur bið

„Þessi tími sem er að baki hefur verið hálfgerð pynting, bara bið og aftur bið. Maður reyndi að dreifa huganum en það komst ekkert annað að. Launin í dag eru á hinn bóginn frábær,“ sagði Þórey Anna sem þakkaði HSÍ fyrir að hafa gefið Valsliðinu tækifæri til þess að einbeita sér að úrslitaleikjunum tveimur og setja úrslitakeppnina á ís á meðan.

Hrós á HSÍ

„Um leið var það frábært að við fengum tækifæri til þess að einbeita okkur að leikjunum. Það er alls ekki sjálfgefið að svo sé. Við sjáum það á spænska liðinu sem lék tvo leiki í úrslitakeppninni á Spáni nokkrum dögum fyrir báða úrslitaleikina við okkur. Ég vil því hrósa HSÍ að setja upp leikjadagskrána með þessum hætti,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir Evrópubikarmeistari með Val sem verður mætt út á völlinn aftur á þriðjudagskvöld þegar úrslitarimma Vals og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn hefst.

Lengra viðtal við Þóreyju Önnu er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.

Evrópubikarkeppni kvenna – fréttasíða.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -