- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stoltur af strákunum

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Mynd/Björgvin Franz
- Auglýsing -

„Ég er ánægður og stoltur af strákunum. Frammistaða þeirra var mjög góð,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals við handbolta.is í gærkvöld, eftir jafntefli við Hauka, 26:26, á Ásvöllum í toppslag Olísdeildar karla í handknatteik.

Valsmenn voru án sex sterkra leikmanna sem hafa sett sterkan svip á liðið undanfarið ár og þess vegna eru úrslitin athyglisverð. Haukar voru með sitt besta lið þótt nokkrir leikmenn séu e.t.v. ekki alveg upp á sitt besta.


Valur var nærri því að hirða bæði stigin eftir að hafa verið fimm mörkum undir þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Snorri Steinn sagði að þrátt fyrir aðdáunarverða frammistöðu piltanna þá væri það svolítið svekkjandi að hafa ekki unnið bæði stigin.

Munaði litlu

„Við verðum líka að viðurkenna að Haukar voru með yfirhöndina stóran hluta leiksins og við vorum í hlutverki þess sem eltir. Það var hinsvegar eitthvað sem við áttum von á, það er að vera að elta gegn sterku Haukaliði. Þess vegna lagði ég áherslu á að missa Hauka aldrei langt frá okkur. Við það jaðraði í síðari hálfleik en sem betur fer tókst okkur að snúa þeirri stöðu við,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.

Vildum færa pressuna

„Von mín var sú að vera með jafnan leik síðustu tíu mínúturnar þannig að pressan færðist yfir á Hauka. Það gekk eftir. Síðan gerðum við nokkrar breytingar eins og til dæmis að setja Alexander Örn í tvistastöðuna í vörninni og vera með tvær varnarskiptingar. Þetta hafði sitt að segja auk þess sem Björgvin markvörður hrökk aftur í gang.“

Snorri Steinn sagðist ekki vera mjög áhyggjufullur þótt margir leikmenn væru fjarri góðu gamni um þessar mundir. Við þessu væri ekkert að gera. Nú sem fyrr nýtti hann þann hóp leikmanna sem væri fyrir hendi.

Verður minn hausverkur

„Í þessari stöðu breikkar hópurinn þannig að þegar frá líður verður það seinni tíma hausverkur að velja rétta liðið þegar allir verða orðnir heilir heilsu. Það er starf þjálfarans,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik sem er tveimur stigum og einum leik á eftir Haukum í öðru sæti.

Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild karla er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -