Kadetten Schaffhausen, liðið sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, stendur orðið vel að vígi í undanúrslitum um meistaratitilinn í Sviss. Kadetten Schaffhausen vann GC Amicitia Zürich í hörkuleik í Zürich í dag, 34:32, og hefur þar með tvo vinninga í rimmu liðanna. GC Amicitia Zürich er án vinnings.
Vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í úrslit. Næst mætast liðin í Schaffhausen á fimmtudaginn. Vinni heimaliðið leikur það til úrslita.
Orri Freyr Gíslason var ekki í leikmannahópi Kadetten Schaffhausen í dag.
Í hinni viðureign undanúrslitanna eigast við Wacker Thun og Pfadi Winterthur. Staðan er jöfn, hvort lið hefur einn vinning. Wacker Thun jafnaði metin í dag með fjögurra marka sigri á heimavelli, 33:29.
Pfadi Winterthur vann meistaratitilinn á síðasta ári en Kadetten Schaffhausen varð meistari 2020.
- Auglýsing -