Aðeins einn handknattleiksmaður, Gísli Þorgeir Kristjánsson, er á meðal tíu efstu í kjöri Íþróttamanns ársins 2023 sem Samtök íþróttafréttamanna standa fyrir 68. árið í röð. Gísli Þorgeir er landsliðsmaður og Evrópumeistari með SC Magdeburg.
Kjöri Íþróttamanns ársins verður lýst á Hilton hóteli fimmtudagskvöldið 4. janúar 2024. Um leið verður hulunni svipt af þjálfara ársins og liði ársins.
Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs, sem vann silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu sem lauk á sunnudaginn er eini handknattleiksþjálfarinn sem er á meðal þriggja efstu í kjöri á þjálfara ársins 2023.
Ekkert handknattleikslið er á meðal þeirra þriggja sem fékk flest atkvæði að þessu sinni.
Í fyrsta sinn í 68 ára sögu kjörs Íþróttamanns ársins eru fleiri konur en karlar á meðal þeirra tíu íþróttamanna sem fengu flest atkvæði í kjörinu að þessu sinni.
Tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins 2023, í stafrófsröð:
Andrea Kolbeinsdóttir, frjálsíþróttir.
Anton Sveinn McKee, sund.
Elvar Már Friðriksson, körfubolti.
Gísli Þorgeir Kristjánsson, handbolti.
Glódís Perla Viggósdóttir, fótbolti.
Jóhann Berg Guðmundsson, fótbolti.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sund.
Sóley Margrét Jónsdóttir, kraftlyftingar.
Sveindís Jane Jónsdóttir, fótbolti.
Thelma Aðalsteinsdóttir, fimleikar.
Í kjörinu 2022 voru þrír handknattleikskarlar á meðal þriggja efstu. Gísli Þorgeir var þá einnig á meðal þeirra efstu auk Ómars Inga Magnússonar og Viktors Gísli Hallgrímssonar.
Handknattleiksmaðurinn Ómar Ingi Magnússon var kjörinn Íþróttamaður ársins 2021 og 2022.
Þrír efstu í kjörinu um þjálfara ársins 2023:
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings í fótbolta.
Pavel Ermolinski, þjálfari karlaliðs Tindastóls í körfubolta.
Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennalandsliðs Noregs í handbolta.
Þórir Hergeirsson varð fyrir valinu í kjöri þjálfara ársins 2022.
Þrjú efstu í kjörinu um lið ársins 2023:
Tindastóll, meistaraflokkur karla í körfubolta.
Víkingur, meistaraflokkur karla í fótbolta.
Víkingur, meistaraflokkur kvenna í fótbolta.
Á vefsíðu Samtaka íþróttafréttamanna, SÍ, er m.a. að finna upplýsingar um tíu efstu í kjörinu frá 1956 þegar SÍ stóð fyrst að kjörinu. Þar er einnig félagaskrá SÍ en allir þeirra höfðu rétt til þess að taka þátt í kjörinu að þessu sinni.
Félagsmenn SÍ hafa kjörið lið ársins og þjálfara ársins frá 2012.