Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar, segir það miklu skipta að liðin í Olísdeildunum fái sem mestan tíma til að hefja æfingar á nýjan leik þegar ástandið í samfélaginu batnar. Eftir því sem lengist í æfingahléinu lengist sá tími um leið sem liðin þurfa til þess að ná sér á strik til að þola álagið sem fylgir því að keppa af fullum krafti á aftur. Heilsa leikmanna verði að vera aðalatiðið þegar kemur að því að huga að framhaldinu.
„Staðreyndin er sú að 2/3 af liðum í Olís deildinni hafa ekki verið með eðlilegar æfingar síðan 4. október. Ef það á svo að byrja að spila um miðjan desember ef það er leyfilegt þá eru það um tíu vikur frá því að síðasti keppnisleikur var spilaður,“ segir Patrekur í svörum við nokkrum spurningum sem handbolti.is sendi honum eins og fleiri þjálfunum í Olís,- og Grill 66 deildunum.
Patrekur telur álitlegt að heimsmeistaramóti karla, sem fram á að fara í Egyptalandi í janúar, verði frestað. Vonandi sé framundan Ólympíuár. Það auki álagið með sumarkeppni hjá mörgu besta handknattleiksfólki heims, forkeppni í vor auk undankeppni EM og þéttari dagskrá í deildarkeppni í landsdeildum.
Spurningar og svörin eru hér rétt fyrir neðan.
Mikil ábyrgð í þessu ástandi
Hvernig hefur gengið að halda leikmönnum við efnið síðustu vikur?
„Við í þjálfarateymi erum í samskiptum við leikmenn í gegnum XPS Sideline þar sem hver og einn leikmaður er með áætlun sem hann þarf að fara eftir. Ábyrgð leikmanna er mikil í þessu ástandi og reynir á hvern og einn að hugsa vel um sig og æfa vel.“
Nýttist þessi rúma vika innanhúss eitthvað að ráði?
„Já, ég myndi segja það. Mikilvægt félagslega þó svo að æfingar hafi verið langt frá því að vera eðlilegar vegna þeirra reglna sem eru í gangi.
Hvernig horfir þú til næstu vikna sem þjálfari?
Það þýðir lítið að kvarta en auðvitað er maður frekar áhyggjufullur yfir stöðunni. Öll þessi stopp reyna á menn líkamlega og andlega en lykilatriðið er baráttan við þessa veiru. Vandamálið varðandi skipulag æfinga í þessu stoppi sem er núna er að enginn veit hvenær fyrsti leikur verður eftir þetta hlé sem við erum með núna. Hvernig á að hanna áætlun? Miða hana við tvær vikur, 4 vikur eða lengra? Þegar hefðbundið undirbúningstímabil byrjar veit þjálfari hvað hann hefur margar vikur (oftast 6-8 vikur) og skipulag miðast við það að vera með liðið í toppstandi þegar mót byrjar. Þetta eru krefjandi aðstæður fyrir þjálfara og leikmenn sem þarf bara að takast á við.“
Langur tími er liðinn
Er eitthvað hægt að velta framhaldinu fyrir í sér í deildarkeppninni meðan óljóst er hvenær verður hægt að hefja æfingar af einhverjum krafti?
„Það skiptir öllu máli hvað liðin fá langan tíma að æfa saman eðlilega áður en fyrsti leikur verður leikinn. Eftir því sem hléið verður lengra því meiri tíma ættu liðin að fá til að undirbúa sig.
Staðreyndin er sú að 2/3 af liðum í Olís deildinni hafa ekki verið með eðlilegar æfingar síðan 4. október. Ef það á svo að byrja að spila um miðjan desember ef það er leyfilegt þá eru það um tíu vikur frá því að síðasti keppnisleikur var spilaður. Liðin myndu ná að spila líklega þrjá leiki hvert og svo kæmi enn ein pásan út af HM í Egyptalandi. Best væri að það mót yrði einfaldlega ekki spilað miðað við stöðuna í heiminum í dag. Væri bara ekki sniðugt að taka eitt mót út því þau eru þannig séð orðin það mörg með stuttu millibili sérstaklega þegar það er Ólympíuár (3 mót á 12 mánaða tímabili). Landsliðsmenn um allan heim hafa látið í sér heyra síðustu ár varðandi mikið leikjaálag svo ég er viss um að flestir yrðu ánægðir ef þetta mót yrði ekki spilað.“
Betri undirbúningur og áhorfendur
„Ef svo yrði að HM færi ekki fram væri skynsamlegra að byrja Íslandsmótið um miðjan janúar og þá vonandi með áhorfendur á leikjum. Liðin kæmu þá betur undirbúin, gæði leiks yrði mjög líklega meiri og meiðsla hætta minni. Að hafa áhorfendur á leikjum er svo stór þáttur í þessu og þegar allt verður eðlilegt aftur (veiran sigruð) þá vona ég innilega að það verði uppselt á leiki í Olís hjá öllum liðum.
Varðandi það að fara að keyra mótið í gang um miðjan desember með 2 – 3 umferðum á stuttum tíma getur verið áhætta fyrir leikmenn því það er mikilvægt að álagið verði stigvaxandi eftir svona langt hlé frá keppni. Við verðum að hugsa fyrst um heilsu leikmanna. En ég skil einnig vel það sjónarmið að það þurfi að byrja sem fyrst til að fá umfjöllun í fjölmiðlum og tekjur í kassann. Mín skoðun er samt sú að heilsa leikmanna skiptir mestu en þetta er ekki auðveld spurning sem ég er að reyna að svara.“
Heldur þú að svo geti farið að ekki verði leikið aftur í Olísdeild fyrr en eftir áramótin?
„Það fer allt eftir því hvenær/hvort í nóvember lið geta æft eðlilega.“