Í gær, 6. mars, voru 60 ár liðin síðan íslenska landsliðið í handknattleik karla hafnaði í sjötta sæti á heimsmeistaramótinu í Vestur-Þýskalandi undir stjórn Hallsteins Hinrikssonar. Sá árangur var ekki jafnaður fyrr en aldarfjórðungi síðar þegar Ísland varð í sjötta sæti á HM í Sviss 1986 undir stjórn Bogdan Kowalczyk.
Af þessu tilefni er viðtal í sunnudagblaði Morgunblaðsins við Gunnlaug Hjálmarsson sem var markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í keppninni með 22 mörk. Hann var um leið þriðji markahæsti maður mótsins og var valinn í heimsliðið í mótslok, fyrstur íslenskra handknattleiksmanna.
„Þetta voru meira og minna hermenn í hinum liðunum, mjög vel á sig komnir. Atvinnumenn þess tíma. Við vorum eins og sveitamenn; renndum svo að segja blint í sjóinn. En eftirvæntingin var mikil,“ segir Gunnlaugur þegar hann rifjar upp þátttöku íslenska landsliðsins á mótinu í viðtali við Orra Pál Ormarsson, blaðamann Morgunblaðsins sem birtist að hluta til á mbl.is í morgun.
Árangur íslenska landsliðsins á mótinu kom mörgum í opna skjöldu en m.a. náðist jafntefli við Tékka, 15:15, í leik þar sem íslenska landsliðið var þremur mörkum undir, 15:12, þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Tékkar voru silfurlið frá næsta móti á undan, HM 1958, þegar Ísland var með í fyrsta skipti. Gunnlaugur var einnig með á því móti eins og hluti íslenska landsliðshópsins 1958.
Ísland tapaði naumlega fyrir Dönum í viðureignni um 5. sætið, 14:13. „Það tap var mjög sárt, ekki síst sigurmarkið sem fór í stöng og þaðan í Hjalta, sem hafði varið mjög vel, og í markið. Lak inn,“ rifjar Gunnlaugur upp í fyrrgreindu viðtali við Morgunblaðið í dag.
Hjalti Einarsson, markvörður FH og íslenska landsliðsins, var að margra mati í mótslok, talinn einn allra besti markvörður heims á þessum tíma.
Leikurinn um fimmta sætið á HM þótti harður. Í umsögn Morgunblaðsins kom eftirfarandi fram: „Í skeyti þýzku fréttastofunnar er það tekið fram að sigur Dana hafi hlotnazt þeim fyrir mikla heppni. Leikur Dana var lélegur og án nokkurs sóknarþunga. Á köflum léku Íslendingar aftur á móti mjög vel og fjölbreytilega. En hinn sænski dómari kom þeim mjög úr jafnvægi með dómum sínum. Flestir áhorfenda tók undir óánægju Íslendinga með ópum.“
Hluta viðtalsins við Gunnlaug er hægt að lesa á vef mbl.is en lengri útgáfu er að finna í pappírsútgáfu Morgunblaðsins sem kom út í gær.
Í tilefni HM 2021 í Egyptalandi rifjaði handbolti.is upp þátttöku Íslands á nokkrum heimsmeistaramótum, m.a. var rifjuð upp þátttakan á HM 1961 og má finna hana hér fyrir neðan. Þar kemur m.a. fram hverjir skipuðu íslenska liðið og sagt frá hverjum leik.
Árangur HM liðsins 1961 var ekki bættur fyrr en á HM 1997 í Japan þegar íslenska landsliðið hafnaði í fimmta sæti undir stjórn Þorbjarnar Jenssonar.