- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aðalsteinn er svissneskur meistari

Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari Kadetten Schaffhausen. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Handknattleiksþjálfarinn Aðalsteinn Eyjólfsson varð í kvöld svissneskur meistari í handknattleik karla þegar lið hans, Kadetten Schaffhausen, vann meistara síðasta árs, Pfadi Winterthur, í þriðja sinn í úrslitarimmu liðanna um meistaratitilinn.


Kadetten vann leikinn á heimavelli í kvöld með þriggja marka mun, 29:26, en samanlagt vann liðið leikina þrjá með 22 marka mun. Þar með er sennilega óhætt að segja að sigur liðsins í úrslitarimmunni hafi verið sannfærandi, 30:19, 28:20 og 29:26. Pfadi tókst ekki að vinna einn leik í úrslitarimmunni.

Síðast árið 2019

Þetta er fyrsti meistaratitill Kadetten eftir að Aðalsteinn tók við þjálfun liðsins fyrir tveimur árum en það varð bikarmeistari 2021 og hafnaði í öðru sæti í úrslitakeppninni um meistaratitilinn fyrir ári síðan. Síðast vann Kadetten meistaratitilinn 2019. Árið eftir stóð liðið vel að vígi þegar mótinu var slaufað eftir að kórónuveiran braust út.

Tólfta sinn á 17 árum

Þetta er í 12. sinn sem Kadetten vinnur meistaratitilinn í handknattleik karla í Sviss en þann fyrst vann lið félagsins fyrir 17 árum, árið 2005. Síðan hefur Kadetten verið sigursælasta handknattleikslið Sviss. Liðið nú er að verulegum hluta til byggt upp á heimaöldum leikmönnum sem gerir meistaratitilinn enn sætari en ella.

Sá fyrsti utan Íslands

Þetta er fyrsti landsmeistaratitill Aðalsteins sem þjálfara utan Íslands en undir hans stjórn urðu kvennalið ÍBV og Stjörnunnar Íslandsmeistarar á fyrsta áratug aldarinnar, síðast árið 2008. Síðan hefur Aðalsteinn þjálfað félagslið í Þýskalandi og nú síðast í Sviss.


Óðinn Þór Ríkharðsson, markakóngur og besti leikmaður Olísdeildar karla 2021/2022 gengur í sumar til liðs við Kadetten Schaffhausen frá KA.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -