- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aðalsteinn meistari í Sviss annað árið í röð

Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari Kadetten Schaffhausen. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Aðalsteinn Eyjólfsson og Óðinn Þór Ríkharðsson fögnuðu í kvöld svissneska meistaratitlinum með félögum sínum í Kadetten Schaffhausen eftir sigur á HC Kriens, 32:28, í fjórða og síðasta úrslitaleik liðanna um meistaratitilinn í Schaffhausen. Þetta er annað árið í röð sem Kadetten vinnur meistaratitilinn í Sviss undir stjórn Aðalsteins en hann kveður félagið í sumar og flytur til Þýskalands hvar hann tekur við GWD Minden.

Meistaralið Kadetten Schaffhausen 2023. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari er annar frá hægri í efstu röð. Óðinn Þór Ríkharðsson annar f.h. í neðstu röð (skeggjaður). Mynd/Kadetten Schaffhausen.Óðinn Þór skoraði fimm mörk í leiknum í kvöld, þar af fjögur úr vítaköstum.

Kadetten var mun sterkara liðið í leiknum í kvöld gegn vængbrotnu liði HC Kriens sem lék án tveggja sterkra leikmanna. Kadetten var fimm mörkum yfir í hálfleik, 19:14.

Mikill fögnuður braust út í leikslok í íþróttahöllinni í Schaffhausen þar sem liðlega 3.300 áhorfendur voru samankomnir til þess að taka þátt í að fagna meistaratitli með liðinu sínu annað árið í röð.

HC Kriens varð deildarmeistari í vor en Kadetten-liðið sem stóð í ströngu í Evrópudeildinni samhliða keppni heimafyrir mætti öflugt til leiks í úrslitakeppnina undir stjórn Aðalsteins þar sem breidd leikmannahópsins hafði mikið að segja þegar upp var staðið.

Kadetten vann tvo fyrstu leikina í úrslitaeinvíginu við Kriens en tapaði þriðju viðureigninni þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en eftir vítakeppni. Alls vann Kadetten níu leiki á þremur stigum úrslitakeppninnar en tapaði aðeins einu sinni.

Aðalsteinn tók við þjálfun Kadetten Schaffhausen í sumarið 2020 og hefur eins og áður segir unnið meistaratitilinn tvö síðustu ár og auk silfurverðlauna 2021. Einnig vann Kadetten bikarkeppnina vorið 2021 með Aðalstein við stjórnvölin.

Þetta er í 13. sinn sem Kadetten Schaffhausen vinnur svissneska meistaratitilinn. Talið er sennilegt að liðið geti sótt um að verða boðin þátttaka í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Óðinn Þór er annar íslenski handknattleiksmaðurinn til þess að vera í meistaraliði Kadetten Schaffhausen. Björgvin Páll Gústavsson varð meistari með liði félagsins 2010 og 2011.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -