- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aðgerð eða ekki aðgerð? – Er ekki eins „dán“ og stundum áður

Gísli Þorgeir Kristjánsson að komast á auðan sjó í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á sunnudaginn. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Ég gef mér þessa viku til að taka ákvörðun um hvert næsta skref verður varðandi öxlina, hvort ég fari í aðgerð eða ekki,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson nýbakaður Evrópumeistari í handknattleik með þýska liðinu í SC Magdeburg og landsliðsmaður Íslands þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans.

Gísli Þorgeir fór sem kunnugt er úr hægri axlarlið í undanúrslitaleik Magdeburg og Barcelona á laugardaginn. Engu að síður tók hann þátt í undanúrslitaleiknum á sunnudaginn, eftir að hafa fengið verkjastillandi lyf og farið í skoðun hjá lækni og sjúkraþjálfara félagsins. Gísli Þorgeir fór á kostum í úrslitaleiknum. Kom hann m.a. að öllum mörkum Magdeburg í framlengingu úrslitaleiksins við Kielce.

Vont að hreyfa öxlina

„Ég er mjög aumur í öxlinni eftir að verkjalyfin hættu að gera sitt gagn. Það er til dæmis mjög vont að hreyfa öxlina. Ég get lifað með ástandinu eins og það er í dag þótt ég geti ekki leikið handbolta,“ sagði Gísli Þorgeir sem kominn er í sumarleyfi frá handknattleik eftir langt og strangt keppnistímabil með nærri 80 kappleikjum með félagsliði og landsliði á rúmlega níu mánaða tímabili.

Hugað að Gísla Þorgeiri eftir að hann meiddist í undanúrslitaleiknum á laugardaginn. Mynd/EPA

Löng fjarvera framundan

Núna veltir Gísli Þorgeir vöngum yfir framhaldinu. Á hann að fara í aðgerð eða ekki vegna áfallsins um síðustu helgi? Ljóst að hvað sem gert verður stendur fyrir dyrum margra mánaða endurhæfing með tilheyrandi fjarveru frá handknattleiksvellinum fram eftir næsta keppnistímabili.

Á allra næstu dögum

„Ég velti þessu fyrir mér og hef bæði íslenska og þýska lækna mér til ráðgjafar. Ég reikna með að á allra næstu dögum verði tekin ákvörðun, af eða á,“ sagði Gísli Þorgeir þegar handbolti.is náði af honum tali í gær þar sem hann var staddur í Magdeburg.

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon með samherjum sínum í Evrópumeistaraliði SC Magdeburg. Mynd/EPA

Betri líðan

„Hvað svo sem gert verður er ljóst að framundan er langur tími við endurhæfingu sem ég verð að sinna eins vel og ég hef gert í fyrri skiptin,“ sagði Gísli Þorgeir líður betur andlega núna en áður þegar hann hann hefur orðið fyrir svipuðum axlarmeiðslum. Að þessu sinni hefur hann sannað sig sem sigurvegari. Hefur náð frábærum árangri – náð áföngum á ferlinum bæði sem Evrópumeistari með félagsliði sínu og eins sem einstaklingur, besti leikmaður þýsku deildarinnar og mikilvægasti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildarinnar.

Á öðrum stað á ferlinum

„Ég stend í öðru sporum á ferlinum en áður. Ég náði ákveðnum árangri, lék heilt frábært keppnistímabil með stórkostlegum íþróttalegum enda þótt ég hafi orðið fyrir þessum slæmu meiðslum í lokin. Það er magnað að fá tækifæri til þess að skrifa söguna og verða hluti af henni. Nú get ég þó litið til baka þegar fram líða stundir og séð hvað ég hef tekið þátt í að vinna, bæði sem einstaklingur og með félagi mínu. Ég er þess vegna ekki eins „dán“ og stundum áður þegar ég verið í þessari stöðu,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson Evrópumeistari í handknattleik með Magdeburg og landsliðsmaður í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -