- Auglýsing -
- Auglýsing -

Æfingaleyfið skiptir öllu máli fyrir leikina mikilvægu

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, og landsliðskonurnar Ragnheiður Júlíusdóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Sigríður Hauksdóttir og Sunna Jónsdóttir. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Við fögnum því að hafa fengið heimild til þess að æfa og búa okkur undir krefjandi leiki sem framundan eru,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna, við handbolta.is. Hann var þá á leiðinni austur í Landeyjarhöfn hvaðan hann heldur heim til Vestmannaeyja eftir að hafa stýrt æfingu íslenska landsliðsins fyrir hádegið í dag.


Önnur æfing var þá að baki eftir að landsliðið fékk leyfi heilbrigðisyfirvalda til þess að æfa næstu vikur fram að leikjunum mikilvægu við Slóvena í undankeppni heimsmeistaramótsins 17. og 21. apríl. Eftir æfinguna í dag fór hver til síns heima og hugsar vel um sig þar til þráðurinn verður tekinn upp við æfingar á ný á mánudaginn af endurnýjuðum krafti. Þá verða aðeins 12 dagar í fyrri viðureignina sem fram fer í Slóveníu.

Ekki verið vænlegt

„Það var mikilvægt að fá þetta leyfi til æfinga. Ekki hefði verið vænlegt fyrir okkur til árangurs að mega ekkert æfa fyrir leikina. Það segir sig eiginlega sjálft. Í gær þegar við byrjuðum var liðin meira en vika síðan leikmenn gáty æft eitthvað að ráði vegna þess að hópurinn fór allur í sóttkví við komuna heim á mánudaginn í síðustu viku,“ sagði Arnar sem valdi 21 leikmann í gær til æfinga.

Stór hópur mikilvægur

Arnar segir nauðsynlegt að velja stóran hóp til að hafa yfir nógu mörgum leikmönnum að ráða á hverri æfingu því ljóst sé að ekki mæti allir á hverja einustu æfingu. Nokkrir leikmenn landsliðsins búa á Akureyri og í Vestmannaeyjum og hafa sínum skyldum þar að gegna. Díana Dögg Magnúsdóttir kemur ekki til liðs við landsliðið fyrr en í Slóveníu en hún á heima í Þýskalandi og leikur með Sachsen Zwickau.

Andrea kemur á morgun

Andrea Jacobsen kemur til landsliðsins frá Kristianstad í Svíþjóð á morgun og fer þá rakleitt í sóttvarnahús í fimm daga. Hún kemur þá væntanlega inn á æfingar á miðvikudaginn í næstu viku. Andrea er nýlega komin af stað aftur á handboltavellinum eftir 13 mánaða fjarveru vegna krossbandaslits. Hún náði fimm leikjum með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni áður en Kristianstad féll úr leik í úrslitakeppninni um síðustu helgi.


Athygli vakti að Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, úr Val, gaf kost á sér í landsliðið fyrir leikina tvo en fimm ár eru síðan hún lék síðast landsleik. Anna hafði dregið saman seglin en þó ekki meira en svo að hún byrjaði að leika með Val fyrir fáeinum viku. Arnar segir komu Önnu inn í hópinn vera afar mikilvæga.

Anna er leiðtogi

„Anna þekkir þetta allt saman út og inn og hefur margoft farið í gegnum svona mikilvæga leiki auk þess að taka þátt í þremur stórmótum með landsliðinu. Anna er mikill leiðtogi sem smitar út frá sér baráttu, reynslu og krafti. Hún er fyrirmynd að öllu leyti. Koma hennar hefur mikið að segja fyrir okkur,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari sem hlakkar til leikjanna við Slóvena síðar í þessum mánuði.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -