- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ætlaði að koma heim en lífið tók aðra stefnu

Harpa Rut Jónsdóttir t.v. ásamt samherjum sínum í LK Zug eftir sigurinn í bikarkeppninni í Sviss fyrir rúmri viku. Mynd/Rene Jäger
- Auglýsing -

„Ég ætlaði alltaf að koma heim eftir nám í Danmörku og leika með KA/Þór en lífið tók aðra stefnu,“ sagði Harpa Rut Jónsdóttir, handknattleikskona í Sviss þegar handbolti.is sló á þráðinn til hennar. Harpa Rut varð á dögunum bikarmeistari með liði sínu LK Zug og stefnir nú á meistaratitilinn en úrslitarimma LK Zug og LC Brühl frá St Gallen hefst á morgun, þriðjudag.

Skemmtileg tilviljun

Svo skemmtilega vildi til að sama dag og Harpa Rut varð bikarmeistari með LK Zug var systir hennar Anna Mary Jónsdóttir í liði KA/Þórs sem fagnaði fyrsta deildarmeistaratitli félagsins Olísdeildinni.

„Það var magnað að þetta gerðist sama daginn eða nánast á sömu stundu. Þegar ég heyrði í systur minni eftir sigurinn hjá okkur þá var hún að fagna með sínum samherjum hjá KA/Þór. Þetta var stór og skemmtilegur dagur í fjölskyldunni,“ sagði Harpa Rut.

„Ég hef búið í Sviss í fjögur ár en áður hafði ég verið í Danmörku í eitt og og hálft ár þar sem ég var í lýðháskóla. Stefnan var að koma aftur heim en ég kynntist strák frá Sviss þegar ég var í Danmörku og flutti með honum til Sviss í stað þess að koma heim,“ sagði Harpa Rut sem er 24 ára gömul og lék með KA/Þór síðast keppnistímabilið 2014/2015.


„Ég var mest í þriðja flokki með KA/Þór en lék svolítið með meistaraflokki, var annar línumaður,“ segir Harpa Rut sem fór að æfa af fullum krafti aftur þegar hún flutti til Sviss fyrir fjórum árum eftir að hafa haldið sér í formi með æfingum hjá dönsku félagsliði meðan hún var í lýðháskóla.

Harpa Rut Jónsdóttir með sigurlaunin í bikarkeppninni í Sviss. Mynd/Úr einkasafni


Fljótlega eftir komuna til Sviss meiddist Harpa Rut alvarlega og var meira og minna frá keppni í eitt ár. Síðan hún jafnaði sig hefur leiðin legið upp á við.

Vildi meiri áskorun

„Ég lék í tvö tímabil með liði í næst efstu deild en langaði í meiri áskorun og hafði þá samband við lið Zug í þeim tilgangi að koma til reynslu á æfingar.

Eftir að hafa verið þar við æfingar sagði þjálfarinn að ég kæmist ekki að hjá aðalliðinu en ég gæti verið hjá liði tvö. Ég tók því og leit á það sem áskorun til að bæta mig og setti mér skýr markmið um að komast í aðalliðið. Strax fyrsta tímabilið meiddist línumaðurinn í aðalliðinu svo það var kallað á mig upp úr liði tvö. Í fyrravetur var ég meira og minna með aðalliðinu þangað til kórónuveiran batt enda á keppnistímabilið. Í sumar sem leið hringdi þjálfari Zug-liðsins í mig og sagðist gjarnan vilja fá mig upp í aðalliðið. Með því hef ég leikið allt þetta keppnistímabil. Það var stórt skref fyrir og mjög skemmtilegt,“ sagði Harpa Rut.



Hörpu Rut og samherjum í LK Zug hefur vegnað vel á keppnistímabilinu. Þær unnu bikarkeppnina fyrir rúmri viku og komust nýverið í úrslit um meistaratitilinn eftir að hafa hafnað í þriðja sæti í deidarkeppninni. LK Zug vann Spono Eagles í undanúrslitum eins og úrslitaleik bikarkeppninnar.

Stefna á meistaratitilinn

„Eftir sigurinn í bikarnum þá stefnum við á að vinna líka meistaratitilinn,“ sagði Harpa Rut og bætir við að það séu alltaf hörkuleikir þegar Zug og Brühl mætast þótt undantekning hafi verið á þegar Zug vann með átta marka mun í undanúrslitum bikarkeppninnar fyrir skömmu.

Harpa Rut komin í marktækifæri í leik með LK Zug á keppnistímabilinu. Mynd/Felix Walker


Framganga Hörpu Rutar á handknattleiksvellinum hefur vakið svo mikla athygli að hún er ein þeirra sem kemur til greina í kjöri á vinsælasta leikmanni deildarinnar. Kjörið stendur yfir á netinu til 30. maí og fylgir hér hlekkur á kjörið fyrir þá sem vilja taka þátt og veita Hörpu Rut brautargengi.


Auk handboltans vinnur Harpa Rut í grunnskóla fyrir fötluð börn og kann þeim starfa afar vel.


Segja má að Zug sé í miðju Sviss. Um þriggja stundarfjórðunga akstur er til Luzern og annað eins til Zürich. Ríflega 30 þúsund manns búa í Zug og talsvert er um Íslendinga á svæðinu að sögn Hörpu Rutar.

Mikið ævintýri

„Ég hef komið mér vel fyrir hér í Sviss og líkar vel að búa hér. Handboltinn verður áfram númer eitt hjá mér. Fyrir þremur árum hefði mér ekki dottið í hug að í dag væri ég farin að spila um verðlaun með svissnesku félagsliði. Þetta er og hefur verið mikið ævintýri og ég er langt frá því að hætta,“ sagði Harpa Rut Jónsdóttir, handknattleikskona hjá svissnesku bikarmeisturunum LK Zug.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -