- Auglýsing -
- Auglýsing -

Af hverju geta stelpur ekki orðið atvinnumenn eins og strákar?

Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins sem er Evrópumeistari og silfurhafi frá HM í síðasta mánuði. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Það er engin spurning að þátttakan á HM er gríðarlega mikilvæg fyrir íslenska kvennalandsliðið og kvennahandboltann heima á Íslandi, ekki síst ef rétt er úr málum unnið,“ sagði Þórir Hergeirsson þjálfari heims- og Evrópumeistara Noregs í samtali við handbolta.is spurður hvort hann áliti það skipta miklu máli fyrir kvennalandsliðið að hafa öðlast þátttökurétt á HM þótt e.t.v. geti verið á brattann að sækja í einhverjum leikjanna.

Kvennahandboltinn er ekkert annar flokks heldur
alvöru íþrótt eins og hjá strákunum


„Íslenska liðið hefur sýnt að það á erindi á heimsmeistaramótið. Það er ekki auðvelt fyrir Ísland að komast inn á HM því Evrópulöndin sem komast inn á mótið eru flest hver þau bestu á mótinu og mun sterkari en liðin frá hinum heimsálfunum,” sagði Þórir og undirstrikaði hversu mikilvægt það væri jafnt fyrir leikmenn íslenska landsliðsins og þjálfara að nýta mótið til þess að finna viðmiðanir til að vinna eftir til að byggja á framförum.

Af hverju geta stelpur frá Íslandi ekki verið atvinnumenn í handbolta eins og strákarnir? Við erum komin fram á árið 2023

Nýta þarf tækifærið í botn

„Það er svo mikilvægt að fá tækifærið til að vera með og ná í viðmiðanir. Sjá hvað gengur og hvað ekki. Leikmenn geta spurt sig að því hvar þeir standa í samanburði við aðra leikmenn. Um leið spyrja leikmenn og þjálfarar sig að því hvar liðið stendur.

Það skiptir miklu máli fyrir Arnar, Gústa og fleiri sem eru að vinna í kvennaboltanum heima að leita svara við þessum spurningum og fleirum með þátttöku á stórmóti. Út frá þessu verða menn að setjast niður og velta fyrir sér hvað þarf að gera betur til að stíga fleiri skref til framfara,” sagði Þórir og benti á að stórmót eins og HM og EM væri gluggi fyrir leikmenn sem standa sig vel og hafa metnað að ná lengra.

Síðan þarf að fá fleiri mjög góða þjálfara til að þjálfa yngri stelpur og forgangsraða í þeim efnum þannig að til verði fleiri góðir leikmenn í kvennaflokki eins og hefur gerst í karlaflokki

HM er gluggi fyrir leikmenn

„Mótið er gluggi fyrir leikmenn sem standa sig vel. Hér eru fyrir augum útsendarar félaganna og geta þar með kannski átt von á að komast að hjá stærri félögum og tekið enn meiri framförum.

Það koma kannski tilboð og möguleikar sem ýtir þeim áfram. Þá sjá yngri stelpurnar heima að það er hægt að vera atvinnumaður í handbolta kvenna. Af hverju geta stelpur frá Íslandi ekki orðið atvinnumenn í handbolta eins og strákarnir? Við erum komin fram á árið 2023,” segir Þórir og bætir við að allar forsendur eigi að vera fyrir hendi á Íslandi.

Er ekki annars flokks

„Okkar landsliðskonur hér í Noregi lifa á að leika handknattleik. Um leið geta þær samhliða handboltanum eignast fjölskyldu og börn og lifað eðlilegu lífi.

Kvennahandboltinn er ekkert annar flokks heldur alvöru íþrótt eins og hjá strákunum,” segir Þórir í áherslutón um að herða veði róðurinn við æfingar heima og fá fleiri betri þjálfara til að æfa yngri leikmenn. Byggja þarf upp grunn undir stjórn fagfólks. Ungir iðkendur verða einnig að vera tilbúnir að leggja á sig mikla vinnu til að ná langt. Allir þurfa að ganga í takt.

Íslenska liðið hefur sýnt að það á erindi á heimsmeistaramótið

Allir verða að leggjast á eitt

„Síðan þarf að fá fleiri mjög góða þjálfara til að þjálfa yngri stelpur og forgangsraða í þeim efnum þannig að til verði fleiri góðir leikmenn í kvennaflokki eins og hefur gerst í karlaflokki. Allir verða að leggjast á eitt, leikmenn, þjálfarar og félögin,” sagði Þórir Hergeirsson þjálfari heims- og Evrópumeistara Noregs í handknattleik kvenna í samtali við handbolta.is í Stafangri.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -