- Auglýsing -
- Auglýsing -

Afrakstur mikillar vinnu að komast aftur í landsliðið

Þórey Anna Ásgeirsdóttir í leik gegn KA/Þór í febrúar. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Þórey Anna Ásgeirsdóttir handknattleikskona hjá Val hefur leikið afar vel með Val á keppnistímabilinu og því kom fáum á óvart þegar hún var kölluð inn í landsliðið á nýjan leik á dögunum eftir tveggja ára fjarveru. Þórey Anna verður væntanlega í eldlínunni með íslenska landsliðinu í tveimur leikjum sem framundan eru gegn B-landsliði Noregs á Ásvöllum, sá fyrri í kvöld en hinn síðari á laugardaginn.


„Það eru komin tvö ár síðan ég var síðast með landsliðinu. Frá þeim tíma hefur covid gengið yfir og ég eignast barn. Svo það hefur sitt af hverju gerst,“ sagði Þórey Anna glöð í bragði þegar handbolti.is hitti hana fyrir eina af æfingum landsliðsins í vikunni.

Fyrri viðureign Íslands og B-landsliðsins Noregs verður á Ásvöllum í kvöld, fimmtudag, og hefst klukkan 19.30. Síðari leikurinn verður á sama stað á laugardaginn klukkan 16. 
Klettur býður landsmönnum á leikina.

Kostaði átak

„Undanfarin ár hefur farið í það að komast í form. Með mikilli vinnu hefur það tekist og þess vegna er ekki leiðinlegt að uppskera með því að vera kölluð inn í landsliðið á nýjan leik. Segja má að það hafi kostað mikið átak að komast á þann stað sem ég á um þessar mundir,“ sagði Þórey Anna og viðurkenndi að það hafi reynst sér vera meiri áskorun en hún reiknaði með að komast á þann stað sem hún er núna í líkamlegu formi ári eftir að hafa fætt fyrsta barn sitt.

Get gert betur

„Það var alltaf markmiðið að komast í gott form aftur og geta verið með af fullum krafti. En þrátt fyrir að vera komin á góðan stað þá finnst mér ég geta gert enn betur. Ég er ekki fullkomin. Fókusinn var hinsvegar alltaf fyrst og fremst á að leika vel með Val. Ef það leiddi til einhvers meira var það bónus og hvatning til frekari dáða,“ sagði Þórey Anna glettin á svip.


„Nú vonast maður til þess að fá að spila en ég er ekki ein um það. Við sjáum til hvað setur.


Leikirnir við Noreg skipta okkur mjög miklu máli fyrir stóra verkefnið gegn Ungverjum í undankeppni HM í næsta mánuði. Okkar metnaður liggur í að nota æfingarnar og leikina tvo eins og kostur er á. Þess utan er alltaf gaman að vera hluti af þeim hóp sem skipar landsliðið hverju sinni,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir leikmaður Vals og íslenska landsliðsins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -