- Auglýsing -
Kristján Andrésson, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í handknattleik og landsliðsþjálfari Svía, hefur verið ráðinn íþróttastjóri sænska úrvalsdeildarliðsins Guif í Eskilstuna. Þetta kom fram á heimsíðu félagsins í gær.
Kristján er öllum hnútum kunnugur hjá Guif. Hann lék með liðinu um árabil þar til hann varð að leggja keppnisskóna á hilluna vegna þrálátra meiðsla. Eftir það þjálfaði Kristján úrvalsdeildarlið Guif í nærri áratug og lék það m.a. undir hans stjórn um sænska meistaratitilinn.
Kristján var ráðinn landsliðsþjálfari Svía eftir Ólympíuleikanna í Ríó haustið 2016 og var í starfi fram yfir EM fyrir ári. Undir hans stjórn vann sænska landsliðið silfur á EM2018 sem voru fyrstu verðlaun Svía á EM karla frá 2002.
Frá sumrinu 2019 og þar til febrúarlok í fyrra var Kristján þjálfari þýska liðsins Rhein-Neckar Löwen. Hann lék 14 landsleiki fyrir Íslands á árunum 2003 og 2004.
- Auglýsing -