- Auglýsing -
- Auglýsing -

Afturelding gerði sér lítið fyrir og fór með tvö stig heim frá Vestmannaeyjum

Afturelding vann mikilvægan sigur í Eyjum. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Afturelding vann sanngjarnan og um leið mikilvægan sigur á ÍBV í Olísdeild kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag, 26:25, eftir að hafa verið með yfirhöndina meirihluta leiksins. Saga Sif Gísladóttir, maður leiksins, tryggði bæði stigin þegar hún varð skot frá Karolinu Olszowa leikmanni ÍBV á síðustu sekúndu leiksins.

Með sigrinum færðist Afturelding upp í sjötta sæti Olísdeildar, alltént í bili, en síðar í dag eigast við Stjarnan og KA/Þór sem eru nú í tveimur neðstu sætum deildarinnar. Stjarnan er stigi á eftir Aftureldingu.

Framan af fyrri hálfleik var fátt sem benti til þess að Afturelding færi með tvö stig heim frá Vestmannaeyjum. ÍBV var með sex marka forskot eftir liðlega stundarfjórðungsleik, 9:3. Upp úr því efldist mjög varnarleikur Aftureldingar og Saga Sif hrökk í gang í markinu. Hún hélt sínu striki til leiksloka og varði alls 16 skot, 46%.

Afturelding át upp forskot ÍBV jafnt og þétt og var marki yfir þegar fyrri hálfleikur var að baki, 15:14.

Lengst af síðari hálfleiks var Afturelding með tveggja til þriggja marka forskot. Ragnhildur Hjartardóttir skoraði mikilvægt mark fyrir Mosfellinga, 25:23, úr vinstra horni þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Henni var vikið af leikvelli skömmu síðar. ÍBV fékk tækifæri til þess að jafna metin meðan liðið var í yfirtölu en nýtti þau ekki. Anna Katrín Bjarkadóttir, frænka Ragnhildar, skoraði 26. mark Aftureldingar þremur mínútum fyrir leikslok. Áfram fékk ÍBV tækifæri til að jafna en allt kom fyrir ekki. Eyjaliðinu virtist ekki ætlað að fá annað stigið að þessu sinni.

Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.

Mörk ÍBV: Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 5, Sunna Jónsdóttir 5, Karolina Olszowa 4, Elísa Elíasdóttir 3, Þóra Björg Stefánsdóttir 3/2, Amelía Einarsdóttir 3, Birna Dís Sigurðardóttir 1, Birna María Unnarsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 10, 27,8%.

Mörk Aftureldingar: Hildur Lilja Jónsdóttir 5, Ragnhildur Hjartardóttir 5, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 4/1, Susan Ines Gamboa 4, Katrín Helga Davíðsdóttir 3, Sylvía Björt Blöndal 3, Lovísa Líf Helenudóttir 1, Anna Katrín Bjarkadóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 16, 45,7% – Rebecca Fredrika Adolfsson 2/1, 25%.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -