- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Afturelding náði að stríða Íslandsmeisturunum

Sigríður Hauksdóttir, Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Hafdís Renötudóttir og Sara Sif Helgadóttir leikmenn Vals. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Valur komst á ný upp að hlið Hauka í efsta sæti Olísdeildar kvenna með sex marka sigri, 29:23, á Aftureldingu í síðasta leik sjöundu umferðar. Leikið var að Varmá. Valur var með tveggja marka forskot, 13:11, eftir fyrri hálfleik. Þótt Aftureldingarliðið reki lestina í deildinni kom það ekki í veg fyrir að liðinu tókst að velgja Val undir uggum í 50 mínútur að Varmá að þessu sinni og allt annað og betra að sjá til Aftureldingarliðsins en gegn KA/Þór fyrir rúmri viku.


Aftureldingarliðið lék með sjö menn í sókn allan leikinn og tókst að gefa Valsliðinu skráveifu þótt vissulega hafi það einnig verið kostnaðarsamt. Valur skoraði a.m.k. sex sinnum í autt mark Mosfellinga. Þótt Valsliðið skoraði nokkur auðveld mörk þá lögðu Mosfellingar ekki árar í bát.

Staðan var jöfn, 5:5, eftir 13 mínútur. Valur náði góðri rispu í framhaldinu og komst þremur mörkum yfir, 10:7, og virtist vera að stinga af. Sú varð ekki raunin þegar frá leið. Afturelding skoraði tvö mörk í röð og minnkaði muninn í eitt mark, 10:9. Valur var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11.

Aftureldingarliðið mætti ákveðið til leiks í síðari hálfleik og aðeins stórbrotin leikur Hafdísar Rönötudóttur markvarðar kom í veg fyrir að Afturelding jafnaði metin strax á annarri mínútu. Það tókst þó að lokum þegar Hildur Lilja Jónsdóttir skoraði 13. mark Aftureldingar, 13:13. Afturelding átti meira að segja nokkru síðar möguleika á að komast yfir í stöðunni 14:14. Tíu mínútur voru þá liðnar af síðari hálfleik.

Aftureldingarliðið gaf sér góðan tíma í allar sóknir sem reyndi mjög á þolrifin hjá varnarmönnum Vals.

Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var Valur með tveggja marka forystu og gat þakkað fyrir hana, 16:18. Uppúr þessu skildu leiðir. Valur náði tvisvar fimm marka forskoti meðan liðið var í yfirtölu og vann boltann af Aftureldingarliðinu í sókn. Þó var enn aðeins fjögurra marka munur, 25:21, þegar hálf fjórða mínúta var til leiksloka.

Valsliðið náði vopnum sínum síðustu 10 mínúturnar og vann öruggan sigur þegar upp var staðið.

Hildur Lilja Jónsdóttir átti stórleik fyrir Aftureldingu og eins Saga Sif Gísladóttir markvörður. Hún kunni vel við sig gegn fyrrverandi samherjum. Athyglisvert er að Afturelding fékk ekkert vítakast.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Mörk Aftureldingar: Hildur Lilja Jónsdóttir 10, Katrín Helga Davíðsdóttir 5, Susan Ines Gamboa 3, Katrín Erla Kjartansdóttir 2, Ragnhildur Hjartardóttir 1, Brynja Fossberg Ragnarsdóttir 1, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 15, 34%.

Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 8/2, Hildigunnur Einarsdóttir 7, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 3, Thea Imani Sturludóttir 3, Auður Ester Gestsdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Morgan Marie Þorkelsdóttir 2.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 7, 36,8% – Sara Sif Helgadóttir 6, 35,3%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -