- Auglýsing -
- Auglýsing -

Afturelding semur við þrjá til þriggja ára

Blær Hinriksson, Brynjar Vignir Sigurjónsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson. Mynd/Afturelding

Blær Hinriksson, Brynjar Vignir Sigurjónsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson hafa skrifað undir nýjan samning við Aftureldingu til næstu þriggja ára. Þeir eiga það allir sammerkt að vera í hópi efnilegustu handknattleiksmanna landsins og hafa látið mikið að sér kveða í leikjum Olísdeildarinnar.

Brynjar og Þorsteinn eru uppaldir Aftureldingarmenn en Blær kom til félagsins sumarið 2020 frá HK. Hann er markahæsti leikmaður Aftureldingar á yfirstandandi tímabili með 80 mörk.


Þorsteinn Leó og Brynjar Vignir hafa síðustu tvö ár verið í U19 og U20 ára landsliðum Íslands sem tekið hafa þátt í lokakeppni EM.

Þorsteinn hefur tekið gríðarlegum framförum á undanförnum árum og er í dag ein af öflugustu skyttum Olísdeildarinnar. Þorsteinn Leó er næst markahæsti leikmaður Aftureldingar á leiktíðinni með 69 mörk.


Brynjar er efnilegur markmaður sem hefur spilað með meistaraflokki Aftureldingar í nokkur ár og er nú þegar kominn með mikla reynslu í Olísdeildinni.


„Blær er fjölhæfur leikmaður sem getur leyst allar stöður fyrir utan á vellinum. Á yfirstandandi leiktímabili hefur Blær haldið áfram að taka framförum sem leikmaður og hefur stimplað sig inn sem einn af betri leikmönnum Olísdeildarinnar,“ segir í tilkynningu frá Aftureldingu.


„Leikmennirnir þrír eiga það allir sameiginlegt að eiga framtíðina fyrir sér og hafa sett stefnuna hátt í handbolta. Leikmennirnir eru frábærar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur í Aftureldingu, og hafa svo sannarlega sýnt að með dugnaði og elju eru íþróttamönnum allir vegir færir,“ segir ennfremur í tilkynningu Aftureldingar af þessu tilefni.


Afturelding fær Fram í heimsókn á Varmá í kvöld í 14. umferð Olísdeildar. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.


Staðan í Olísdeild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -