- Auglýsing -
- Auglýsing -

Afturelding tók forystu í umspilinu með heimasigri

Brynja Rögn Ragnarsdóttir, Katrín Helga Davíðsdóttir, Telma Rut Frímannsdóttir og Susan Ines Gamboa kampakátar með fyrsta sigurinn í umspilinu í kvöld. Ljósmynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Afturelding tók forystu í umspilskeppni Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld með sanngjörnum fjögurra marka sigri á Gróttu, 28:24, að Varmá. Mosfellingar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik. Næsta viðureign liðanna verður í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi á fimmtudaginn klukkan 16. Liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki öðlast þátttökurétt í Olísdeildinni á næstu leiktíð.

Afturelding var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:14. Liðið var lengst af með yfirhöndina en gekk illa að halda forskotinu til lengdar nema á síðustu 10 mínútunum.

Stundarfjórðungi fyrir leikslok var staðan jöfn, 20:20, eftir að Grótta hafði skorað þrjú mörk í röð og unnið upp fjögurra marka forskot sem Aftureldingarliðið hafði náð snemma í hálfleiknum.
Talsvert stress virtist í leikmönnum beggja liða að Varmá í kvöld. Hátt í 20 sinnum tapaði hvort liðið boltanum og á tíma var eins og hvorugt þeirra vildi hreinlega vera með boltann.

Vonandi verður mesti skrekkurinn úr báðum liðum á sumardaginn fyrsta.

Saga Sif Gísladóttir markvörður Aftureldingar var frábær. Hún varði 15 skot og var stóri munurinn á liðunum eins og þau léku í kvöld.

Margir áhorfendur voru á leiknum að Varmá í kvöld sem settu góðan svip á leikinn.

Mörk Aftureldingar: Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir 5, Hildur Lilja Jónsdóttir 4, Katrín Helga Davíðsdóttir 4, Susan Ines Gamboa 4, Ragnhildur Hjartardóttir 3, Anna Katrín Bjarkadóttir 3, Sylvía Björt Blöndal 2, Lovísa Líf Helenudóttir 2, Brynja Fossberg Ragnarsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 15.
Mörk Gróttu: Katrín Anna Ásmundsdóttir 5, Karlotta Óskarsdóttir 4, Rut Bernódusdóttir 4, Ída Margrét Stefánsdóttir 3, Ólöf María Stefánsdóttir 2, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 2, Sara Björg Davíðsdóttir 2, Þóra María Sigurjónsdóttir 2.
Varin skot: Soffía Steingrímsdóttir 7.

Umspil Olís kvenna: leikjadagskrá og úrslit

Handbolti.is var að Varmá og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -