- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ágúst Elí varði fjögur vítaköst í Álaborg

Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður Ribe-Esbjerg hefur verið kallaðurinn í íslenska landsliðið sem fer til Grikklands. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Aron Pálmarsson lék ekki með Aalborg Håndbold á heimavelli í dag vegna veikinda þegar liðið vann nauman sigur á Ribe-Esbjerg, 29:28, í 12. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Eins og lokatölurnar benda til var viðureignin hnífjöfn og æsilega spennandi. Ribe-Esbjerg var marki yfir í hálfleik, 14:15.


Ágúst Elí Björgvinsson stóð hluta leiksins í marki Ribe-Esbjerg og varði sjö skot, þar af fjögur vítaköst af sex sem hann spreytti sig á. Frábær árangur hjá Ágústi. Niðurstaða hans í leiknum var 44% hlutfallsmarkvarsla.

Fjögur mörk hjá Elvari

Elvar Ásgeirsson skorað fjögur af mörkum Ribe-Esbjergliðsins. Hann hefur oft verið með betri nýtingu sex skot geiguðu. Elvar gaf tvær stoðsendingar sem skiluðu sér í mörkum.


Arnar Birkir Hálfdánsson kom lítið við sögu. Jonas Larholm var markahæstur með sex mörk. Felix Claar skoraði einnig sex mörk fyrir Álaborgarliðið.


Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari Aalborg, var að vanda á sínum stað við hlið Stefan Madsen þjálfara við hliðarlínuna. Aalborg er efst í deildinni með 23 stig eftir 12 leiki.

Daníel Freyr varði 9 skot

Meistarar GOG er stigi á eftir Aalborg eftir fimm marka öruggan sigur á Lemvig á heimavelli, 33:28. GOG var 10 mörkum yfir, 24:14. Daníel Freyr Andrésson var hluta leiksins í marki Lemvig og varði 9 skot, 28%.

Sigur í grannaslag

Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundsson í Fredericia Håndboldklub unnu grannaslaginn við Kolding, 28:25, á heimavelli í dag og eru eftir sem áður í sjöunda sæti deildarinnar, stigi á eftir Ribe-Esbjerg. Sigurinn er væntanlega kærkominn á sterku liði Kolding sem leikið hefur afar vel það sem af er leiktíðar.


Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia Håndboldklub sem önglaði hefur saman 13 stigum.

Góður sigur hjá Sveini og félögum

Sveinn Jóhannsson skoraði tvö fyrir Skjern sem lagði Bjerringbro/Silkeborg með þriggja marka mun á útivelli í hörkuleik, 35:32. Sveinn er óðum að komast á skrið eftir langvarandi og erfið meiðsli sem hafa haldið honum frá keppni allt þetta ár.


Skjern er í fimmta sæti með 16 stig eftir leikina tólf.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -