Ágúst Elí Björgvinsson og Arnór Atlason fögnuðu sigri, hvor með sínu liði, í úrslitakeppni dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í kvöld. Ágúst Elí og félagar í Kolding unnu Svein Jóhannsson og samherja í SönderjyskE, 32:29, í fyrsta riðli undanúrslitanna á heimavelli. Um var að ræða fyrsta sigur Kolding í úrslitakeppninni en liðið hafði tapað tveimur fyrstu viðureignum sínum.
Arnór er aðstoðarþjálfari Danmerkurmeistara Aalborg Håndbold sem lögðu Óðin Þór Ríkharðsson og samherja hans í TTH Holstebro, 30:26, í Holstebro. Þetta var annar sigur Aalborg í þremur leikjum í öðrum riðli átta liða úrslita. Fjögur lið eru í hvorum riðli.
Óðinn Þór skoraði tvö mörk í þremur skotum.
Ágúst Elí kom lítið við sögu í sigurleiknum á SönderjyskE. Hann kom stuttlega inn á en varði ekkert af þeim þremur skotum sem hann fékk á sig. Sveinn skoraði eitt mark fyrir SönderjyskE átti auk þess eina stoðsendingu.
SönderjyskE hefur tvö stig að loknum þremur leikjum í riðli eitt eins og Kolding. Bjerringbro/Silkeborg hefur þrjú stig og GOG sex stig en liðin eiga leik til góða á SönderjyskE og Kolding.
Í riðli tvö er Aalborg efst með sex stig, Holstebro er með fimm, Skanderborg tvö og Skjern er án stiga. Tvö síðarnefndu liðin eiga leik inni á þau tvö fyrir ofan.