Þýskalandsmeistarar THW Kiel unnu öruggan sigur á Danmerkurmeisturum Aalborg Håndbold á heimavelli síðarnefnda liðsins í Álaborg nú síðdegis í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla, 31:23. Þetta var fyrsta tap Aalborg í keppninni eftir fjóra sigurleiki. Dönsku meistararnir voru leiknir sundur og saman á köflum í leiknum. Þeir voru m.a. átta mörkum undir í hálfleik, 17:9.
Kiel hefur þar með náð í sex stig í fjórum leikjum í B-riðli en liðið hefur leikið einum leik færra en Aalborg.
Danski landsliðsmarkvörðurinn Niklas Landin reyndist leikmönnum Aalborg erfiður í fyrri hálfeik. Hann lék fyrstu 25 mínúturnar en þá tók Þjóðverjinn Dario Quenstedt við og varði einnig afar vel. Saman voru þeir með hlutfallsmarkvörslu upp á 62% í fyrri hálfleik.
Leikmenn Aalborg náðu sér aðeins á strik á kafla í síðari hálfleik en aldrei svo að þeir gætu ógnað þýsku meisturunum að ráði. Minnstur var munurinn fimm mörk, 27:22, þegar fimm mínútur voru til leiksloka en mestur var munurinn níu mörk.
Nikolaj Christiansen skoraði sex mörk fyrir Aalborg og var þeirra markahæstur. Jonas Samuelsson skoraði fimm mörk og Burster Juul-Lassen skoraði þrisvar sinnum.
Norðmaðurinn Sandor Sagosen kunni afar vel við sig á gamla heimavellinum. Hann skoraði 11 mörk í 14 skotum fyrir Kiel og var óstöðvandi. Niklas Ekberg skoraði sex mörk.
Leik Veszprém og Barcelona var frestað og einnig viðureign Motor og Nantes. Á eftir eigast við Zagreb og Celje. Öll eiga liðin sæti í B-riðli.
Staðan, leikjafjöldi innan sviga: Barcelona 8(4), Veszprém 8(4), Aalborg 8(5), Kiel (6(4), Nantes 2(4), Motor 0(3), Zagreb 0(4), Celje 0(4).