Alexander Petersson og samherjar í Flensburg er enn með eins stig forskot í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik efti leiki dagsins. Flensburg vann Arnór Þór Gunnarsson og félaga í Bergischer HC, 29:22, í Flensburg. Alexander skoraði ekki mark í leiknum en Arnór Þór skoraði þrjú mörk úr vítaköstum fyrir Bergischer.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk, þar af eitt úr vítakasti, þegar Magdeburg hafði betur gegn Melsungen sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar, 31:27, en leikið var í Magdeburg. Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað yfir þá sem skoruðu fyrir Melsungen að þessu sinni.
Oddur Gretarsson skoraði fjögur mörk, þar af eitt úr vítakasti, þegar lið hans tapaði fyrir meisturum Kiel á heimavelli, 33:22.
Gunnar Steinn Jónsson og liðsmenn Göppingen sluppu fyrir horn með annað stigið á heimavelli þegar þeir tóku á móti Nordhorn, 26:26. Göppingen jafnaði þegar 20 sekúndur voru til leiksloka í jöfnum leik. Gunnar Steinn skoraði ekki mark.
Staðan:
Flensburg 42(23), THW Kiel 41(23), Rhein-Neckar Löwen 40(27), SC Magdeburg 38(25), Göppingen 34(24), Füchse Berlin 29(25), Wetzlar 28(25), Melsungen 25(22), Leipzig 25(25), Lemgo 24(22), Erlangen 22(23), Stuttgart 21(26), Hannover-Burgdorf 18(24), GWD Minden 16(25), Balingen-Weilstetten 15(26), Ludwigshafen 13(25), Nordhorn 13(26), Essen 11(25), Coburg 8(25).