- Auglýsing -
- Auglýsing -

Allir verið í basli með þá

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, í handknattleik karla. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Við þurfum á öllu okkar að halda í leiknum. Það er alveg ljóst. Litháar hafa sýnt það í sínum leikjum og með þeim úrslitum sem þeir hafa náð að þeir eru afar verðugir andstæðingar með hörkulið,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í aðdraganda leiksins við Litháa í Laugardalshöll í kvöld. Viðureignin er sú fyrsta í undankeppni EM2022.

„Við förum aðeins út í óvissuna að þessu sinni. Bæði vegna þess að miklar breytingar hafa orðið á liðinu, nánast daglega, á síðustu dögum áður en við komum saman. Eins er ljóst að allur hópurinn nær aðeins einni æfingu saman og varla það. Til viðbótar hefur landsliðið ekki komið saman frá því í lok janúar á Evrópumeistaramótinu. Við vitum ekki hvar við stöndum um þessar mundir. Þessi staða er ekkert grín,“ sagði Guðmundur Þórður sem kom til landsins síðdegis á mánudaginn ásamt nokkrum leikmönnum.

Sá síðasti kom í gær

Síðasti leikmaðurinn í 17 manna hópnum, Arnór Þór Gunnarsson, kom til Íslands í gær og fór beint í skimun og sóttkví. Hann náði þar af leiðandi ekki æfingu með hópnum áður en flautað verður til leiks í kvöld klukkan 19.45.

Guðmundur Þórður hefur farið vel yfir síðustu leiki Litháa auk þess sem hann man vel eftir leikjunum tveimur gegn þeim í júníbyrjun 2018 í forkeppni HM. Jafntefli varð í viðureigninni ytra, 27:27, en íslenska liðið vann með þriggja marka mun í Laugardalshöll, 34:31.

Allt jafnar viðureignir

„Portúgalar mættu Litháaum í tvígang á síðasta ári og voru í stórkostlegum vandræðum á móti þeim. Ekki má gleyma leikjunum okkar við Litháa sem voru mjög erfiðir. Ég hef farið yfir leiki Litháa á móti Noregi, Frökkum og Rúmenum. Allir leikirnir eiga það sameiginlegt að vera mjög jafnir. Það hafa allir verið í basli með þá,“ segir Guðmundur Þórður.

Útsjónarsamur miðjumaður

Helsta tromp landsliðs Litháa er miðjumaðurinn, Aidenas Malasinskas sem leikur með úkraínska meistaraliðinu Motor Zaporozhye. Hann er brögðóttur og útsjónarsamur og reyndist varnarmönnum íslenska landsliðsins óþægur ljár í þúfu í fyrrgreindum leikjum í sumarbyrjun 2018. Malasinskas er háll sem áll í sóknaraðgerðum.

„Hann deilir boltanum mjög vel og er afar útsjónarsamur. Þess vegna er erfitt að ná tökum á þeim. Auk Malasinskas þá hafa Litháar yfir að ráða mjög frambærilegum mönnum í öllum stöðum. Þeir leika mjög óþægilegan handknattleik. Þetta er hörkulið. Við þurfum á öllu okkar að halda. Þess utan er um afar mikilvægan leik að ræða í byrjun á nýrri undankeppni,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.

Á vakt í Höllinni

Viðureign Íslands og Litháen hefst klukkan 19.45 í Laugardalshöll. Leikurinn er lokaður almennum áhorfendum. Hann verður sýndur á RÚV.
Handbolti.is verður með blaðamann í Laugardalshöll undir ströngum skilyrðum um sóttvarnir. Handbolti.is mun eftir megni flytja fregnir úr Laugardalshöll auk þess að vera með viðtöl eftir að leik lýkur.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -