- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alls ekkert sjálfgefið að koma upp og halda sætinu

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, fylgist með leiknum gegn Þór í gær. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

„Nú er þungu fargi af okkur létt eftir að hafa tryggt áframhaldandi veru í Olísdeildinni,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu við handbolta.is, eftir sigur liðsins á Þór Akureyri í Olísdeildinni, 27:21, í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í gær.


„Að baki þessum leik lá gríðarleg vinna af okkar hálfu. Ég var farinn að hljóma eins og gömul hljómplata í eyrum strákanna eftir vídeófundi og æfingar síðustu daga. Við vissum alveg hvað Þórsarar myndu gera. Við vorum búnir að fara vel yfir leik þeirra frá A til Ö því við ætluðum að leggja allir í sölurnar til að vinna,“ sagði Arnar Daði en sigurinn tryggði nýliðum Gróttu áframhaldi veru í deildinni, nokkuð sem margir nýliðar síðustu ára hafa átt í erfiðleikum með.

„Vinnan á bak við leikinn var mikil sem ég held að fólk hafi séð. Við brydduðum meðal annars upp á þremur nýjum hlaupaleiðum í sókninni. Ég er afar glaður með að vinnan skilaði sér í þessum sigri,“ sagði Arnar Daði og ljóst var á hans fasi að honum var mjög létt.

Enginn hafði trú okkur

„Ég held að ekki einn einasti maður hafi haft trú á því þegar Grótta öðlaðist sæti í Olísdeildinni fyrir ári þegar keppni var hætt löngu áður en deildarkeppninni var lokið að við myndum halda sæti okkar í Olísdeildinni eftir þetta tímabil. Það var og er ekki sjálfgefið að byggja upp lið og koma því í þá stöðu sem það er í um þessar mundir. Leikmenn Gróttu hafa flestir hverjir litla sem enga reynslu.

Þótt Stefán Huldar markvörður sé orðinn 31 árs þá hefur hann aldrei verið aðalmarkvörður hjá liði í efstu deild fyrr en í vetur. Ég get talið upp fleiri sem hafa verið frábærir en búa ekki að mikill reynslu sem burðarásar, Birgir Steinn, Daníel, Gunnar Dan. Við erum með japanskan leikmann í hægra horninu sem aldrei hefur leikið meistaraflokksleiki fyrr en í vetur. Fleiri mætti nefna.

Japanski hornamaðurinn Satoru Goto hefur vaxið við hverju raun með Gróttuliðinu á leiktíðinni. Hér hefur hann leikið á Garðar Örn Jónsson, leikmann Þórs. Mynd/Eyjólfur Garðarsson


Það var hvorki sjálfsagt að okkur tækist að sanka að okkur öllum þessum leikmönnum né að okkur lánaðist að halda sæti í deildinni,“ sagði Arnar Daði og bætti við.

Hvað er eðlilegt?

„Strákarnir eiga hrós skilið. Umræðan hefur hinsvegar beinst að því að við næðum ekki að standa í mikið sterkari liðum skipuð leikmönnum með mikla reynslu. Það þótti sjálfsagt að við stæðum í stærri liðunum. Það er langt í frá eðlilegt og hefur sýnt sig á undanförnum árum að nýliðar hafa oftar en ekki átt erfitt uppdráttar og fallið eftir árs dvöl í Olísdeildinni. Ef við hefðum fallið þá hefðum við misst allt liðið.“

Þórsarar sterkari en Grillliðin

„Þess vegna þarf að skoða það betur hvort næst neðsta lið Olísdeildar eigi ekki að fara í umspil við lið úr Grill 66-deildinni fremur en að tvö lið falli sjálfkrafa. Með fullri virðingu fyrir liðunum sem fara í umspilið nú úr Grilldeildinni þá er Þórsliðið mikið sterkara en þau öll.

Fyrir okkur snerist málið um svo mikið meira en að falla ekki því ef við hefðum fallið þá hefði öll sú vinna sem við höfum lagt í liðið orðið að engu,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu í Olísdeild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -