- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Alls ekki einfaldur undirbúningur“

Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Undirbúningurinn verður stuttur í alla enda,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í gær. Eftir eina æfingu með 17 af 20 leikmönnum liðsins í fyrradag og með fullskipuðum hóp í tvígang í gær hélt íslenska landsliðið til Portúgal í morgun. Þar næst verður ein æfing í Porto á morgun áður en kemur að leiknum við landslið Portúgals í Porto á miðvikudagskvöld. Eftir það verður farið heim á fimmtudag og æft heima á föstudag og laugardag áður en kemur að síðari leiknum við Portúgal í Schenker-höllinni á Ásvöllum á sunnudaginn klukkan 16.


Mánudaginn, eftir viku, verður farið til Egyptalands þar sem flautað verður til fyrsta leiks Íslands fimmtudaginn 14. janúar. „Þetta er alls ekki einfaldur undirbúningur en við vinnum úr þessari stöðu eins og best verður á kosið,“ sagði Guðmundur Þórður sem mat ástand þeirra 20 leikmanna sem hann var með á æfingum í gær „nokkuð gott.“

Ekki leikið í þrjá mánuði

„Vissulega er óvissa um leikform á þeim leikmönnum sem er hjá íslenskum félagsliðum. Þeir hafa ekki fengið að leika handknattleik í þrjá mánuði og ekki æft verulegan hluta þess tíma eins best verður á kosið. Síðan er mismunandi staða á öðrum leikmönnum eins og gengur en það er eitthvað sem ekki verður kippt í liðin á fáeinum dögum. Við mætum bara stöðunni eins og hún er,“ sagði Guðmundur Þórður.


Af þremur leikmönnum hjá íslenskum félagsliðum fór einn þeirra með til Portúgals í morgun, línumaðurinn Kári Kristján Kristjánsson. Björgvin Páll Gústavsson, markvörður, og Magnús Óli Magnússon urðu eftir heima ásamt Elliði Snæ Viðarssyni og Kristjáni Erni Kristjánssyni.


Megináhersla var lögð á varnarleik á æfingu á laugardagskvöldið og á fyrri æfingu í gær. Á síðdegisæfingu í gær var unnið með sóknarleik eftir að fundað hafði verið um áherslur í honum á fundi fyrir æfingunna. Eðlilega hefur þurft að stokka upp spilin í sóknarleiknum eftir að ljóst var að Aron Pálmarssonar getur ekki verið með í leikjum landsliðsins í þessm mánuði.

Hver æfing miðast við næsta leik


„Við verðum að miða hverja æfingu við þann leik sem er framundan þar um mikilvæga leiki er að ræða gegn Portúgal í undankeppni EM. Það er einstakt að taka þátt í svo forkeppnisleikjum á þessum tíma, í aðdraganda stórmóts. Yfirleitt höfum við leikið vináttuleiki á þessum tíma árs þar sem hægt hefur verið að stýra álagi og leggja áherslu á ákveðna þætti leiksins, prófa leikmenn og fleira.


Þess utan er það sérstök staðreynd að leika þrjá leikin við Portúgal á níu dögum í þremur mismunandi löndum, allt leiki sem skipta miklu máli. En við það verður við að búa og er ekkert við að gera,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari.


Fyrsti leikur Íslands á HM í Egyptalandi verður 14. janúar gegn Portúgal.
Viðureign Íslands og Portúgal í undankeppni EM verður leikin í Porto á miðvikudagskvöld og hefst klukkan 19.30. Á ný mætast liðin í undankeppni EM sunnudaginn 10. janúar í Schenker-höllinni á Ásvöllum á sunnudaginn klukkan 16. Leikirnir verða sýndir hjá RÚV.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -