- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Allt að 60 til 70% tekjufall

Tekjur handknattleiksdeilda hafa hrunið eftir að kórónuveiran fór að leika lausum hala í ársbyrjun. Mynd/Skapti Hallgrímsson
- Auglýsing -

Áhrif kórónuveurunnar hefur haft gríðarleg áhrif á rekstur handknattleiksdeilda félaga á landinu. Hafa tekjur sumra þeirra fallið um allt að 60-70% frá því mars. Þetta kom fram í samtölum sem handbolti.is átti við formenn nokkurra handknattleikleiksdeilda sem eiga lið í Olís og Grill 66-deildum karla og kvenna. Hvergi hefur tekjufallið orðið minna en 25%. Algengt er að tekjur deildanna hafi dregist saman um a.m.k. fjörutíu af hundraði og útlitið sé alls ekki bjart.

Ennfremur kemur fram hjá formönnunum að óvissan sé mikil vegna komandi mánaða. Mörg fyrirtæki haldi að sér höndum og þá sé alveg óvíst hvenær tekjur af áhorfendum skili sér á ný inn í bókhaldið. Þeim leikjum sem þegar er lokið á Íslandsmótinu hafi ekki skilað eins miklum tekjum og áður vegna hertra samkomutakmarkana. Færri áhorfendur hafi komið á leiki auk þess sem í nokkra daga í lok september hafi nánast heilu umferðirnar verið leiknar fyrir luktum dyrum.

Erfitt að afla nýrra sambanda


Formennirnir segja ástæður þessa tekjufalls m.a. vera þær að nokkrir samstarfsaðilar hafi kippt að sér höndum eða dregið verulega saman seglin. Þá er nefnt að vonlítið sé að afla nýrra samstarfsfyrirtækja þar sem fyrirtæki haldi að sér höndum og hafi gert svo mánuðum saman. Einnig hafi nokkur fyrirræki sem enn séu með samninga við íþróttafélög fengið frest til þess að standa skil á greiðslum í ljósi ástandsins og óvissu.

Tekjur af miða- og veitingasölu hefur hrunið enda sárafáir sem hafa komið á leiki í fyrstu umferðum Olís- og Grill 66-deildanna. Mynd/HSÍ


Handknattleiksdeildir urðu af talsverðum tekjum þegar hætt var við úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitlana í vor í karla og kvennaflokki. Örfáar voru svo heppnar að eiga lið í undanúrslitum Coca Cola bikarsins sem náðist að klára áður en samkomutakmarkanir voru hertar verulega snemma í mars. Tekjur af bikarhelginni voru góðar og hafi fleytt þeim örlítið áfram en um skamman tíma þó. Gömul saga og ný sé að sama krónan verður ekki notuð tvisvar.

Tekjur af mótum og leigu engar


Flest félög hafa haft mikilvægar tekjur af mótahaldi, útleigu húsnæði til veisluhalds og skemmtana. Allt slíkt er liðin tíð og ekki króna komið í kassann síðan í lok febrúar eða í byrjun mars.


Ekki hafi heldur bætt úr skák að töluverðar takmarkanir voru á aðgengi áhorfenda á kappleiki í september og fram í október að keppni og æfingum var frestað. „Þetta voru tekjur sem við máttum ekki við að missa af,“ segir einn formaðurinn.

Milljónir í bikarleikjum

Sömu sögu segja menn af þeim leikjum í 1. umferð Coca Colabikarkeppninnar, bikarkeppni HSÍ, sem framundan eru og var frestað í byrjun síðustu viku. Bikarleikir eru yfirleitt vel sóttir og færa liðum drjúgar tekjur í formi sölu aðgöngumiða og veitinga. Ekki síst eins og nú þegar tvær viðureignir 1. umferðar verða á milli liða úr Olísdeild karla. Eru jafnvel nefndar milljónir króna í töpuðum tekjum vegna þessara leikja verði fáir eða engir áhorfendur eins og útlit er fyrir þegar keppni verði heimiluð á ný, hvenær sem það verður.


Styrkir frá ríkinu hjálpuðu upp á sakirnar hjá flestum deildum en náðu alls ekki að vega upp nema upp í hluta tekjufallsins. Einn formaður nefndi að stuðningurinn frá ríkinu til sinnar deildar hafi numið um þriðjungi af tekjufallinu. Ekkert félag hefur fengið stuðning frá sínu sveitarfélagi vegna ástandsins.

Handbolti.is um halda áfram að fjalla um stöðu handknattleiksdeilda á morgun.

Menn vona það besta en búa sig undir það versta í rekstri handknattleiksdeilda á næstunni. Mynd/Skapti Hallgrímsson
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -