- Auglýsing -
- Auglýsing -

Allt þarf að ganga upp hjá okkur

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Dagur Sigurðsson tekur nú þátt í sínu öðru heimsmeistaramóti í röð sem landsliðsþjálfari Japans. Lið hans verður í riðli með silfurliði EM fyrir ári, Króatíu, Asíumeisturum Katar og Angóla í C-riðli sem leikinn verður í Alexandríu, við Miðjarðarhafsströnd Egyptalands. Þegar handbolti.is náði tali af Degi í gærmorgun var hann á hóteli í Kaíró en sagði að til stæði að fara til Alexandríu í dag og þar með inn í hina svokölluðu „HM-búbblu“. „Þá verðum við lokaðir inn í búbblunni,“ sagði Dagur sem er aðeins farinn að venjast dvölinni í Egyptalandi. 

„Við komum hingað þriðja janúar og höfum leikið tvo vináttuleiki við landslið Egyptalands. Undirbúningur hefur gengið nokkuð vel, miðað við aðstæður,“ sagði Dagur sem hefur dvalið með japanska landsliðinu síðan í október, lengst af í Japan. 

„Undirbúningurinn hefur verið markaður af faraldrinum eins og hjá öðum. Okkur gekk ekkert að fá æfingaleiki því eins og staðan er í heiminum þá hefur verið útilokað að fá lið til Japans til leikja,” sagði Dagur.

Ein helsta skyttan fingurbrotin

„Við erum bara þakkátir fyrir að það hafa ekki komið upp smit í okkar hópi sem hefur gert að verkum að okkur hefur tekist að halda áætlun. Japanir eru mjög agaðir að upplagi og fara í einu öllu eftir settum reglum.

Að vísu hafa tveir til þrír lykilmenn verið meiddir sem hefur sett strik í reikninginn og síðan urðum við fyrir áfalli í dag þegar Adam Yuki, ein helsta skytta okkar fingurbrotnaði. Hann verður þar af leiðandi ekkert með okkur á mótinu sem er afar bagalegt.

Síðan hafa landsliðsmenn leikið í Póllandi í vetur sem gerir að verkum að þeir hafa ekki komið inn í verkefnið með okkur fyrr en nýlega,“ sagði Dagur. 

Ætlum að klóra okkur áfram

Japanska landsliðið rak lestina af 24 þátttökuliðum á HM 2019 í Þýskalandi og Danmörku. Dagur sagði að sjálfsögðu væri stefnt á að taka skref fram á við. „Við ætlum að klóra okkur áfram. Króatíu og Katar eru með sterkari lið. Okkar möguleikar liggja í leiknum við Angóla. Hinsvegar eru Angólamenn ekkert auðveldir. Þeir eru stórir og sterkir og henta okkur ekkert vel frekar en önnur svipuð lið sem byggja sinn leik á stórum og sterkum leikmönnum. Það þarf að allt að ganga upp hjá okkur en klárlega þá stefnum við á að komast upp úr riðlinum. Það fara þrjú lið áfram úr hverjum riðli í milliriðla.“

Gekk betur gegn þeim betri

„Á HM fyrir tveimur árum þá gekk okkur best gegn þeim liðum sem fyrirfram voru talin mikið betri en við en síðan gekk okkur verr gegn þeim liðum sem voru lakari og við áttum að eiga meiri möguleika gegn,“ segir Dagur sem vonast vissulega til að sínir menn séu orðnir reynslunni ríkari og búnir að hrista úr sér mesta sviðsskrekkinn.

„Þriðja sæti í riðlinum væri gott skref fram á við. Við höfnuðum í þriðja sæti á síðasta Asíumóti sem var framför frá mótinu á undan. Við höfum stigið skref til framfara,“ sagði Dagur ennfremur sem hefur verið þjálfari japanska landsliðsins frá því snemma árs 2017. Hann sagði starfi sínu lausu hjá þýska landsliðinu eftir HM fyrir fjórum árum.

Hvernig spilar ástandið inn í HM?

Dagur sagði að fróðlegt yrði að fylgjast með HM að þessu sinni í ljósi ástandsins. Hann vildi ekki blanda sér í umræðuna um áhorfendur á leiki mótsins.  Ljóst væri hins vegar að talsverðar breytingar væru á mörgum liðum vegna ástandsins í heiminum. Meðal annars mætti vafalaust skrifa mörg meiðsli á reikning heimsfaraldursins en sökum hans hefur keppni og undirbúningur margra handknattleiksmanna farið úr skorðum.

„Við sjáum hvernig ástandið er til dæmis hjá Tékkum og Svíum þar sem mikið hefur verið um smit kórónuveiru. Eins hafa leikmenn ákveðið að gefa ekki kost á sér vegna ástandsins. HM getur orðið ljós í myrkinu fyrir marga áhugamenn um handbolta en það getur líka farið á hinn veginn ef mörg smit koma upp á meðan á mótinu stendur,“ segir Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í samtali við handbolta.is.

Fyrsti leikur japanska landsliðsins verður á móti Króötum klukkan 17 á föstudaginn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -