- Auglýsing -
- Auglýsing -

Allt verður lagt undir í Eyjum á miðvikudag

Haukamaðurinn Andri Már Rúnarsson hefur lengstum farið á kostum í úrslitakeppninni. Hér sækir hann að Arnóri Viðarssyni og Ísaki Rafnssyni, leikmönnum ÍBV. Mynd/Olísdeildin
- Auglýsing -

Allt verður lagt undir í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum á miðvikudagskvöld. Það er staðreynd eftir að Haukar jöfnuðu einvígið með sigri á Ásvöllum í kvöld, 27:24, í fjórða úrslitaleiknum við ÍBV. Haukar hafa þar með unnið tvo síðustu leiki eftir að ÍBV hafði betur í tveimur fyrstu viðureignunum.

Aðeins einu sinni á öldinni hefur liði sem tapaði tveimur fyrstu leikjunum í úrslitum unnið meistaratitilinn. KA, undir stjórn Atla Hilmarssonar, vann það afrek 2002.

Úrslitaleikurinn hefst klukkan 19 á miðvikudag. HSÍ staðfesti leiktímann fljótlega eftir að viðureigninni á Ásvöllum lauk í kvöld með sanngjörnum sigri Hauka. Þeir voru með yfirhöndina frá upphafi til enda. Forskot þeirra var sjö mörk eftir afar öflugan leik í fyrri hálfleik, 17:10.

Framan af síðari hálfleik virtust Eyjamenn ekki ætla að ná alvöru áhlaupi. Þeir voru átta mörkum undir, 22:14, eftir tíu mínútur og enn átta mörkum undir þegar 14 mínútur stóðu eftir af leiktímanum. Þá hófst endaspretturinn. Leikmönnum Hauka tókst hinsvegar að hanga á forskoti sínu eins og hundur á roði. Verðskulduðu forskoti sem þeir höfðu svo sannarlega unnið fyrir með góðum leik í 45 mínútur.

Fyrri hálfleikur á Ásvöllum var að mörgu leyti framhald af síðasta leik sem fram fór í Vestmannaeyjum á föstudaginn. Haukar sóttu af mikilli ákefð og léku frábæra vörn og slógu Eyjamenn út af laginu strax í upphafi. Ekki var langt á leikinn liðið þegar Haukar voru komnir með fjögurra marka forskot, 5:1.

Eftir það áttu leikmenn ÍBV erfitt uppdráttar. Vörn Hauka var frábær og hélt sóknarmönnum ÍBV niðri. Adam Haukur Baumruk fór á kostum og Aron Rafn Eðvarðsson hrökk í gang og varði allt hvað af tók, m.a. tvö vítaköst.

Byr var í seglum Hauka þegar gengið var til búningsherbergja. Þeir voru sjö mörk yfir, 17:10. Eyjamenn virtust út af laginu slegnir. Greinilega ekki búnir að jafna sig eftir föstudagsleikinn. Kraftmikil byrjun Hauka varð síðan til þess að skrekkurinn jókst til muna.

Mörk Hauka: Andri Már Rúnarsson 7, Stefán Rafn Sigurmannsson 5/1, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Guðmundur Bragi Ástþórsson 2, Þráinn Orri Jónsson 2, Geir Guðmundsson 2, Heimir Óli Heimisson 2, Adam Haukur Baumruk 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 13/3, 37,1% – Matas Pranckevicus 0.
Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 7/3, Arnór Viðarsson 5, Kári Kristján Kristjánsson 3, Elmar Erlingsson 2, Gabríel Martinez Róbertsson 2, Janus Dam Djurhuus 1, Dagur Arnarsson 1, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1, Dánjal Ragnarsson 1, Theodór Sigurbjörnsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 11, 37,9%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -