- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alltaf gaman að verja mikilvægu skotin

Saga Sif Gísladóttir lék afar vel í dag í fyrsta undanúrslitaleiknum við Hauka.Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Vörnin var frábær og þar af leiðandi var samvinnan okkar á milli eins og best var á kosið. Það skilaði þessum sigri,“ sagði Saga Sif Gísladóttir, markvörður Vals, en hún átti framúrskarandi leik gegn Fram í gærkvöldi þegar Valsliðið vann með fjögurra marka mun, 28:24, í Olísdeild kvenna í handknattleik í annarri umferð. Leikið var í Origohöllinni á Hlíðarenda.

Saga Sif varði m.a. skot Steinunnar Björnsdóttur af línu þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka og kom í veg fyrir að Steinunn minnkaði forskot Vals niður í eitt mark. Segja má að markvarsla Sögu þá hafi gert út um vonir Framara að hleypa meiri spennu í lokamínútur viðureignarinnar. „Það er alltaf gaman að verja svona mikilvæg skot,“ sagði Saga Sif sposk á svip.

Saga Sif varði jafnt og þétt allan leikinn og undirstrikaði með frammistöðu sinni að hún verðskuldar fyllilega að vera valinn í landsliðshópinn sem tilkynntur var á miðvikudaginn.  „Það var bara mikill vilji í öllum leikmönnum frá upphafi sem skapaði svo skemmtilega stemningu og hjálpaði okkur mjög mikið gegn jafn erfiðu liði og Fram er.“

Saga Sif segir að eftir jafnan fyrri hálfleik þá hafi Valsliðið náð yfirhöndinni snemma í síðari hálfeik. „Það var samt alltaf spenna í leiknum vegna þess að Framliðið var aldrei langt á eftir. En fyrst og fremst var það varnarleikur okkar sem lagði grunn að þessum sæta sigri. Ég hafði eiginlega aldrei áhyggjur af því að við myndum missa forskotið alveg niður vegna þess að vörnin hélt nær fullkomlega hjá okkur frá upphafi til enda,“ sagði Saga Sif Gísladóttir, markvörður Vals sem átti annan stórleik sinn í röð í deildinni í gærkvöldi. Hún varði einnig eins og berserkur í leiknum við Hauka í fyrstu umferð Olísdeildarinnar fyrir viku.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -