- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alveg eins líklegt að ekki verði spilað fyrir áramót

Sebastian Alexandersson, þjálfaði Fram á síðasta tímabili. Hann er þjálfari HK. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson.
- Auglýsing -

Sebastian Alexandersson, þjálfari karlaliðs Fram, segir það hafa gengið vel til þessa að halda leikmönnum við efnið. Hinsvegar sé stöðvun æfinga nú nokkur vonbrigði sem færi menn aftur til baka. Innanhússæfingarnar, þótt í skamman tíma hafi verið, hafði haft góð áhrif á leikmenn. Erfitt sé að sjá fram í tímann og hvenær þá verði hægt að hefja keppni í Olísdeildinni á nýjan leik.

Vonar að hætt verði við HM


Sebastian fer ekki ofan af þeirri skoðun sinni að út í hött sé að leika alþjóðlega kappleiki við þessar aðstæður. Þá vonar hann að heimsmeistaramót karla sem til stendur að halda í Egyptalandi 13. – 31. janúar nk verði slegið af. Þar með verður hægt að hefja keppni af krafti aftur á Íslandsmótinu, ef aðstæður vegna kórónuveirunnar leyfa.


Handbolti.is sendi Sebastian, eins og fleiri þjálfurum í Olís,- og Grill 66-deildunum nokkrar spurningar. Hann svaraði um hæl. Og víst er að Sebastian liggur ekki á skoðunum sínum frekar en fyrri daginn.

Komnir aftur á byrjunarreit


Hvernig hefur gengið að halda leikmönnum við efnið síðustu vikur?

„Það hefur verið áskorun að finna upp á æfingum og halda mönnum við efnið líkamlega og andlega. Hingað til hefur það gengið vel og það er enn hugur í mönnum. Þetta nýjasta stopp hins vegar er pínu vonbrigði því að nú erum við aftur komnir á byrjunareit. Nú verði að stokka spilin upp á nýjan leik.“

Mikilvægur tími


Nýttist þessi rúma vika innanhúss eitthvað að ráði?

„Já jesús biddu fyrir þér .. hún var gríðarlega mikilvæg að öllu leyti og fyrst og fremst andlega og það var gaman að sjá menn brosa og njóta þess að vera að gera eitthvað sem lið. Mönnum hefur líklega aldrei fundist jafn gaman að gera einfaldar grunnæfingar með bolta eins og núna.“

Stiga skref afturábak


Hvernig horfir þú til næstu vikna sem þjálfari?

„Tja þegar stórt er spurt…. Við Guðfinnur [Kristmannsson aðstoðarþjálfari] ákváðum að létta aðeins prógrammið í viku og leyfum leikmönnum aðeins að stíga skref afturábak. Vissulega verða þeir með plan og eiga að vera virkir en fyrsta vikan í nóvember verður öðruvísi en hingað til. Við gerum svo aðra atlögu að tilhlaupinu fyrir fyrsta leik frá 9. nóvember.“

Tökum stöðuna 9. nóvember


Er eitthvað hægt að velta framhaldinu fyrir í sér í deildarkeppninni meðan óljóst er hvenær verður hægt að hefja æfingar af einhverjum krafti?

„Við vorum með plön fyrir alls konar uppákomur síðustu vikur og ég viðurkenni að það hefur tekið á að vera með mörg „ef-þá“ plön í gangi. Í þetta skiptið þá held ég svei mér þá að ég og Guffi [Guðfinnur] munum bara taka stöðuna aftur 9. nóvember og gera ráðstafanir miðað við hvernig staðan verður þá í þjóðfélaginu. Munum halda sambandi við leikmenn á Zoom og í síma eins og hingað til.“

Eiga ekki að vera á dagskrá


Heldur þú að svo geti farið að ekki verði leikið aftur í Olísdeild fyrr en eftir áramótin?

„Ég held að það sé alveg jafn líklegt að það verði spilað og að það verði ekki spilað fyrir áramót. Fer líklega eftir því hvernig nýjustu reglur yfirvalda virka næstu tvær vikurnar. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi ekki að vera spila alþjóðlega leiki í neinni íþrótt eins og staðan er í heiminum núna. Keppni innanlands í löndum þar sem staðan leyfir það er annað mál. Í ljósi þess að ég hef þessa skoðun þá er ég að vona að HM verði frestað og þá gætum við jafnvel spilað í janúar. En það er bara mín skoðun.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -