- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alveg geggjað að hafa náð þessu

Berglind Þorsteinsdóttir landsliðskona í handknattleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég er mjög spennt fyrir að fara út og taka þátt í æfingaleikjunum fyrir HM og koma okkur af stað áður en aðal alvaran byrjar,“ sagði Berglind Þorsteinsdóttir landsliðskona í handknattleik og leikmaður Fram í samtali við handbolta.is áður en íslenska landsliðið hélt af landi brott til Noregs til þátttöku á æfingamóti áður en flautað verður til leiks á heimsmeistaramótinu undir mánaðamót. 

Berglind hefur lengi verið slæm í öðru hnénu en hefur fengið bót síðustu mánuði. Þegar íslenska landsliðið fékk þátttökurétt á HM í sumar var Berglind meidd og óvíst hvort hún yrði klár í slaginn til að takast á við álagið sem fylgir HM.

Var á HM 19 ára landsliða

Eins og nær allir leikmenn landsliðsins þá býr Berglind ekki yfir reynslu af þátttöku af stórmóti A-landsliða. Hún segist hafa fengið nasaþefinn þegar hún var með 19 ára landsliðinu á HM sumarið 2018. Meðal annarra leikmanna þess liðs sem eru í A-landsliðshópnum í dag eru Andrea Jacobsen og Sandra Erlingsdóttir. 

„Ég kannast aðeins við að taka þátt í stórmótum en HM núna verður mikið stærra og ég mjög spennt,“ sagði Berglind sem var að berjast við hnémeiðsli í sumar og í haust og taldi jafnvel um tíma að hún gæti ekki átt möguleika á sæti í landsliðinu sökum meiðsla. 

Lét mig dreyma

„Ég vonaðist alltaf til þess að ná þessu enda var það draumurinn. Meiðslin hafa gert mér gramt í geði lengi en eftir tvær sprautur í haust hef ég fengið bata. Ég er góð eins og er. Þegar Ísland fékk þátttökuréttinn á HM í sumar þá var ég meidd og var ekki vissum að geta verið með en lét mig dreyma. Það er alveg geggjað að hafa náð þessu,“ sagði Berglind Þorsteinsdóttir landsliðskona Íslands í handknattleik og HM-fari í samtali við handbolta.is.

Íslenska landsliðið fór til Noregs í morgun og leikur sinn fyrsta leik af þremur á fjögurra þjóða móti ytra á morgun. Upphafsleikur Íslands á HM verður 30. nóvember gegn Slóveníu.

Leikjadagskrá Posten Cup 23. – 26. nóvember:
Fimmtudagur, Hamar:
Kl. 15.45: Pólland – Ísland.
Kl. 18.15: Noregur – Angóla.
Laugardagur, Lillehammer:
Kl. 15.45: Noregur – Ísland.
Kl. 18.15: Angóla – Pólland.
Sunnudagur, Lillehammer:
Kl.13.45: Noregur – Pólland.
Kl.16.15: Ísland – Angóla.

Allir leiktímar eru miðað við klukkuna á Íslandi.

– RÚV sýnir leiki Íslands á mótinu.
– Handbolti.is hyggst eftir megni fylgjast með leikjum Íslands á mótinu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -