Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik hefur ekkert leikið með danska úrvalsdeildarliðinu Silkeborg-Voel síðan síðla í janúar eftir að hún fékk þungt höfuðhögg sem olli heilahristingi. Hún gat þar af leiðandi ekki gefið kost á sér í landsliðið sem mætir Svíum í tvígang um næstu mánaðamót í undankeppni Evrópumótsins.
Andrea sagði handbolta.is í morgun að hún hafi alls ekki jafnað sig ennþá af heilahristingnum. Andrea sagði óvíst hvenær hún getur æft og leikið með Silkeborg-Voel á nýja leik. Hún elur þá von í brjósti að það geti orðið þegar að æfingar og keppni hefst aftur eftir landsleikjahléið í næsta mánuði. Hvort af því verður er ómögulegt að segja eins og mörg dæmi af höfuðhöggum handknattleiksfólk bera vott um.
Andrea samdi við Silkborg-Voel síðasta sumar eftir eins árs veru hjá EH Aalborg í næst efstu deild.
Silkeborg-Voel, sem er í fimmta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, mætir Viborg í 21. umferð deildarinnar í kvöld.