Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik fór á kostum með Blomberg-Lippe í kvöld þegar liðið vann Thüringer HC, 36:31, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Með sigrinum hafði Blomberg-Lippe sætaskipti við Thüringer HC, fór upp í þriðja sæti en liðið frá Þýringalandi fór niður í fjórða sæti. Tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni.
Andrea var allt í öllu í sóknarleik Blomberg-Lippe og skoraði átta mörk í níu tilraunum. Hún átti einnig tvær stoðsendingar. Auk þess lét Andrea til sín taka í vörninni og var fyrir vikið að bíta í það súra epli að vera í tvígang vikið af leikvelli í tvær mínútur í hvort skipti.
Díana Dögg Magnúsdóttir lék ekki með Blomberg-Lippe. Hún er að jafna sig af ristarbroti síðla í janúar.
Sandra stóð fyrir sínu
Sandra Erlingsdóttir og samherjar í TuS Metzingen áttu á brattann að sækja á útivelli gegn meistaraliðinu HB Ludwigsburg. Sandra stóð hinsvegar vel fyrir sínu og skoraði m.a. fjögur mörk í 13 marka tapi, 41:28.
TuS Metzingen er í sjötta sæti af 12 liðum deildarinnar með 20 stig eftir 20 viðureignir.