Andrea Jacobsen og félagar hennar í sænska handknattleiksliðinu Kristianstad standa vel að vígi eftir fimm marka sigur á tyrkneska liðinu Anakara Yenimahalle BSK, 28:23, í fyrri viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik í kvöld. Leikið var í Kristianstad.
Andrea skoraði fjögur mörk í leiknum en því miður liggja ekki á lausu nákvæmari upplýsingar um frammistöðu hennar á þessari stundu. Hún var þriðja markahæst í sænska liðinu. Andreu var einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur.
Kristianstad var sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:10.
Liðin mætast öðru sinni á sama stað annað kvöld.