- Auglýsing -
- Auglýsing -

Andrea sá til þess að KA/Þórsliðið fór tómhent norður

Hulda Bryndís Tryggvadóttir leikmaður KA/Þórs sleit krossband. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Valur er kominn með tvo vinninga í einvígi sínu við KA/Þór í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik eftir sigur, 30:26, í þriðja leik liðanna í Origohöllinni í kvöld í afar kaflaskiptum leik. Fjórða viðureign liðanna verður í KA-heimilinu á laugardaginn og hefst klukkan 15. Andrea Gunnlaugsdóttir fór á kostum í marki Vals. Hún var með yfir 50% markvörslu og var skerið sem skúta Íslandsmeistaranna steytti á.

Kaflaskipt

KA/Þór var marki yfir, 14:13, að loknum fyrri hálfleik eftir að hafa verið mest sex mörkum yfir, 7:1. Snemma í síðari hálfleik náði KA/Þór fjögurra marka forskoti áður en Valsliðið með Andreu í broddi fylkingar sneri þróun leiksins algjörlega við.


Leikmenn KA/Þórs hófu leikinn af gríðarlegum krafti. Þeir voru með byr í seglum og þegar sjö mínútur voru liðnar af leiknum var forskot þeirra orðið sex mörk, 7:1. Litlu mátti muna að það væri 8:1, en mark Rakelar Söru Elvarsdóttur eftir hraðaupphlaup var dæmt af vegna línu þótt það stæði góða stund á markatöflunni.


Valskonur vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið í upphafi enda var Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari liðsins ekki að tvínóna. Hann tók leikhlé í þeim tilgangi að vekja leikmenn sína til vitundar um að leikur væri hafin. Þrumuræða Ágústs virtist hafa tilætluð áhrif. Alltént hresstust leikmenn Vals og fækkuðu mjög einföldum mistökum sem einkenndu upphafsmínúturnar.

Varði af miklum móð

Jafnt og þétt batnaði leikur Valsliðsins, ekki síst varnarleikurinn. Einnig hafði það sitt að segja að KA/Þór var utan vallar í átta mínútur í fyrri hálfleik. Við það riðlaðist leikurinn skiljanlega og varð til þess að Valur komst inn í leikinn. Við bættist að Andrea kom í marki og tók til við að verja af miklum móð. Jafnt og þétt dró saman með liðunum. Aðeins var eins marks munur þegar leiktíminn var á enda, 14:13, KA/Þór í vil.


KA/Þór hóf síðari hálfleikinn vel en eins og í upphafi þess fyrri þá voru leikmenn Vals ekki alveg með á nótunum. KA/Þórsliðið skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkunum og náði fjögurra marka forskoti, 20:19.

Jafnt í fyrsta sinn

Lovísa Thompson jafnaði metin, 21:21, þegar 16 mínútur voru til leiksloka. Elín Rósa Magnúsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir skoruðu tvö næstu mörk leiksins og komu Valsliðinu tveimur mörkum yfir þegar 13 mínútur voru eftir af leiktímanum.


Átta mínútum fyrir leiksloka var forskot Vals komið í fjögur mörk og áfram hélt Andrea að gera leikmönnum KA/Þórs gramt í geði með markvörslu sinni.
Þrátt fyrir ákafar tilraunir þá hafði KA/Þórsliðið ekki erindi sem erfiði við að snúa leiknum sér í hag undir lokin enda náði Valur mest fimm marka forskoti, 28:23.


Mörk Vals: Hildigunnur Einarsdóttir 6, Auður Ester Gestsdóttir 6, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5, Lovísa Thompson 5, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Mariam Eradze 3, Hulda Dís Þrastardóttir 1, Thea Imani Sturludóttir 1.
Varin skot: Andrea Gunnlaugsdóttir 18/1, 51,4%.

Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 5, Unnur Ómarsdóttir 5, Martha Hermannsdóttir 4/1, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Sunna Guðrún Pétursdóttir 3, 9,4%.


Öll tölfræði leiksins er hjá HBstatz.

Handbolti.is var í Origohöllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -