- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Annar öruggur sigur – Ísland á HM 2025

Frá landsleik í Laugardalshöll. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Gulltryggt er að íslenska landsliðið í handknattleik tekur þátt í heimsmeistaramóti karla í handknattleik sem fram fer í Danmörku, Noregi og Króatíu frá 14. janúar til 2. febrúar á næsta ári. Í dag lagði íslenska landsliðið liðsmenn eistneska landsliðsins öðru sinni í umspili um HM sætið. Að þessu sinni voru lyktir leiksins, 37:24. Samanlagður sigur í leikjunum tveimur 87:49.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var 18:13 Íslandi í vil.

Ísland verður þar með þátttakandi í 23. sinn á heimsmeistaramóti, þar af í áttunda sinn í röð eða allt frá 2011. Dregið verður í riðla HM miðvikudaginn 29. maí. Sennilegt má telja að íslenska landsliðið hafni í riðli sem fram fer í Danmörku eða í Noregi.

Mótspyrna Eistlendinga í Kalevi Spordihall í dag var aðeins meiri en í Laugardalshöllinni á miðvikudaginn, ekki síst var varnarleikurinn betri auk þess sem Rasmus Ots varði afar vel.
Hvorki Ots né kollegi hans, Armis Priskus, voru með á nótunum í fyrri leiknum.

Þótt mótspyrna væri meiri en áður sló það ekki íslensku piltana út af laginu. Þeir voru fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:13, og juku síðan hraðann í upphafi síðari hálfleiks. Eftir tíu mínútur í síðari hálfleik var forskotið 12 mörk, 28:16. Lítið var annað eftir en að bíða eftir að leiktíminn gengi út. Yfirburðirnir voru miklir. Sem fyrr var þetta góð æfing fyrir íslenska liðið að bæta sinn leik og venjast áfram nýjum áherslum landsliðsþjálfarans með það í huga að gera betur á næsta stórmóti.

Allir 16 leikmenn sem voru á skýrslu fengu að láta ljós sitt skína. Markverðirnir skiptu leiktímanum á milli sína. Svipaða sögu var að segja um hornamennina fjóra. Orri Freyr Þorkelsson fékk reyndar síðustu sex mínútur síðari hálfleik í viðbót við allan fyrri hálfleikinn eftir að Bjarka Má Elíssyni var vikið af leikvelli með rautt spjald fyrir að skjóta í höfuð Ots markavarðar í vítakasti.

Orri Freyr hlýtur að hafa styrkt stöðu sína í kapphlaupinu um stöðuna í vinstra horninu með leikjunum tveimur. Alltént nýtti hann vel færin sín í báðum viðureignum.

Mörk Íslands: Orri Freyr Þorkelsson 9, Ómar Ingi Magnússon 7, Óðinn Þór Ríkharðsson 6, Viggó Kristjánsson 5, Elvar Ásgeirsson 3, Janus Daði Smárason 2, Bjarki Már Elísson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1, Elliði Snær Viðarsson 1, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 7, 35% – Ágúst Elí Björgvinsson 5, 31,2%.

Mörk Eistlands: Karl Toom 5, Hendrik Koks 5, Dener Jaanimaa 3, Karl Roosna 3, Jürgen Rooba 2, Hendrik Varul 2, Sigmar Seermann 1, Mathias Rebane 1, David Mamporia 1, Aleksander Pertelson 1.
Varin skot: Rasmus Ots 15, 28,8%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -