Þorvaldur Sigurðsson er hættur þjálfun karlaliðs Þórs á Akureyri en liðið leikur í Olísdeildinni. Frá þessu er greint á heimasíðu Þórs. Halldór Örn Tryggvason, sem hefur starfað við hlið Þorvaldar, verður einn við stjórnvölinn út keppnistímabilið.
Tekið er fram í tilkynningu Þórs að Þorvaldur hafi óskað eftir því að láta af störfum og það hafi orðið að samkomulagi á milli hans og stjórnar handknattleiksdeildar.
Þór er í næst neðsta sæti Olísdeildar með fjögur stig eftir 11 leiki. Næsti leikur Þórs verður við Aftureldingu í Íþróttahöllinni á Akureyri klukkan 16 á morgun í 12. umferð deildarinnar.
- Auglýsing -