- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Anton, Jónas, Hafþór, Bjarni, Halldór, Witzke, Nenadic, Martinsen

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dómarar. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -
  • Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma viðureign Þýskalandsmeistara SC Magdeburg og rúmenska meistaraliðisins Dinamo Búkarest í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla sem fram fer í Magdeburg í kvöld. Þetta er sjötti leikurinn sem þeir félagar dæma í Meistaradeild karla á keppnistímabilinu. 
  • Hafþór Már Vignisson og samherjar í ØIF Arendal sóttu ekki gull í greipar leikmanna Fjellhammer í viðureign liðanna í Lørenskoghallen í gær. Leikurinn var liður í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik og lauk með sex marka sigri Fjellhammer, 33:27. Hafþór Már skoraði eitt mark. ØIF Arendal  er fallið niður í áttunda sæti deildarinnar eftir nokkur slæm úrslit upp á síðkastið. Liðið verður að halda vel á spilunum á endasprettinum til þess að ná sæti í úrslitakeppninni. 
  • Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði fimm mörk þegar lið hans IFK Skövde vann Lugi, 33:26, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. IFK Skövde er komið upp í sjötta sæti deildarinnar með 22 stig eftir 23 leiki en mjög er tekið að síga á seinni hluta deildarkeppninnar. 
  • Halldór Jóhann Sigfússon mátti bíta í það súra epli að sjá leikmenn sína í TTH Holstebro tapa fyrir SönderjyskE, 33:30, í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Þetta var fyrsti leikur TTH Holstebro eftir að Halldór Jóhann tók við sem aðalþjálfari um síðustu helgi. TTH Holstebro situr enn í áttunda sæti deildarinnar en hefur leikið einum leik fleira en Ribe-Esbjerg sem er í níunda sæti og á leik inni á Holstebro.
  • Luca Witzke leikstjórnandi þýska liðsins SC DHfK Leipzig, sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar, hefur dregið sig út úr þýska landsliðinu sem mætir Dönum í Evrópubikarkeppni landsliða 9. og 12. mars. Witzke meiddist á vinsti öxl í sigurleik SC DHfK Leipzig á Magdeburg um síðustu helgi. Meiðslin eru ekki talin alvarlega en nógu slæm til þess að Witzke verður að taka sér frí frá handknattleik fram í miðjan þennan mánuði, hið minnsta.
  • Serbinn Petar Nenadic sem leystur var undan samningi við Veszprém á dögunum vegna árekstra við þjálfara liðsins samdi í gær við franska meistaraliðið PSG til loka leiktíðar. Nenadic á að hlaupa í skarðið fyrir Nikola Karabatic sem verður frá keppni næstu þrjá mánuði vegna meiðsla. 
  • Þrír af fjórum markvörðum þýska 2. deildarliðsins HSC 2000 Coburg, sem Tumi Steinn Rúnarsson leikur með, eru fjarverandi vegna meiðsla um þessar mundir. Af þeim sökum hefur hinn 44 ára gamli Norðmaður, Havard Martinsen, þekkst boð um að hlaupa í skarðið hjá sínu gamla félagi meðan vandinn er hvað mestur. Martinsen lék í 11 ár með Coburg frá 2004 til 2015. Hann verður klár í slaginn með liðinu á laugardaginn gegn Eintracht Hagen
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -