- Auglýsing -
- Auglýsing -

Arna og Rut sagðar leggjast á árarnar með Andra Snæ

Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Andri Snær Stefánsson skiptast á skoðunum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Arna Valgerður Erlingsdóttir hafa verið ráðnar aðstoðarþjálfarar handknattleiksliðs KA/Þórs. Munu þær eiga að létta undir með Andra Snæ Stefánssyni þjálfara á næsta keppnistímabili. Frá þessu greinir Akureyri.net í kvöld samkvæmt heimildum.


Andri Snær er að hefja sitt þriðja keppnistímabil sem þjálfari KA/Þórsliðsins. Fyrir nokkrum vikum gekk sá þráláti orðrómur að hann ætlaði að hætta þjálfun liðsins. Gangi frétt Akureyri.net eftir er ljóst að Andri Snær heldur sínu striki með góðum stuðningi reynslumikilla leikmanna. Rut Arnfjörð hefur verið lykilmaður liðsins síðustu tvö ár. Arna Valgerður hefur lítið getað leikið með vegna meiðsla en er þrautreynd handknattleikskona.

Arna Valgerður Erlingsdóttir. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Talsverðar breytingar

Ljóst er að talsverðar breytingar verða á leikmannahópi KA/Þór á milli keppnistímabila. Rakel Sara Elvarsdóttir hefur samið við norska úrvalsdeildarliðið Volda, Aldís Ásta Heimisdóttir gengur til liðs við Skara HF í sænsku úrvalsdeildinni og Sunna Guðrún Pétursdóttir markvörður stendur á milli stanganna hjá GC Amicitia í Zürich í Sviss á næsta vetri. Til viðbótar stefnir Ásdís Guðmundsdóttir á að spreyta sig hjá öðru liði. Einnig verður Anna Mary Jónsdóttir ekki með KA/Þór á næsta tímabili, alltént ekki fram yfir áramót, samkvæmt upplýsingum handbolta.is.

Liðsstyrks leitað?

Handbolti.is fékk pata af því fyrir nokkrum vikum að KA/Þórsliðið væri að leita að liðsstyrk fyrir átökin sem framundan eru. Enn sem komið er hefur ekkert það gerst sem rennur stoðum undir patann.


KA/Þór vann allt sem hægt var að vinna veturinn 2020 til 2021, meistarakeppni HSÍ og varð síðan deildar-, bikar- og Íslandsmeistari. Liðið féll út í undanúrslitum bæði í bikarkeppninni og í Olídeildinni á síðasta keppnistímabili.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -