- Auglýsing -
- Auglýsing -

Arnar Daði í þriggja leikja bann

Arnar Daði Arnarsson mun vera hættur þjálfun karlaliðs Gróttu. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari karlaliðs Gróttu í handknattleik, hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann af aganefnd HSÍ. Eins og kom fram á handbolta.is á dögunum vísaði framkvæmdastjóri HSÍ ummælum Arnars Daða í samtali við mbl.is eftir viðureign ÍBV og Gróttu í Olísdeild karla í síðustu viku til aganefndar. Þóttu þau geta skaðað ímynd handknattleiksíþróttarinnar.


„Aganefnd tekur undir að þjálfarinn hefði í viðtalinu mátt viðhafa varfærnislegra orðalag og að téð ummæli séu honum ekki til framdráttar. Með vísan til fyrri fordæma verður við þessar aðstæður að gera greinarmun á, annars vegar ummælum sem fela í sér almenna gagnrýni á störf dómara og hins vegar alvarlegum aðdróttunum í garð einstakra aðila, ásakanir um óheiðarleika eða aðra viðlíka háttsemi. Telur nefndin að umrædd ummæli falli undir hvoru tveggja, en með orðum sínum gaf þjálfarinn dómurum leiksins að sök að draga taum annars liðsins. Slík háttsemi engur gegn 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál og eru til þess falllin að skaða ímynd íþróttarinnar út á við.


Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða nefndarinnar að ummælin feli í sér ósæmilega framkomu sem skaðað getur ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Aganefnd telur því ljóst að umrætt atvik uppfylli öll skilyrði 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál og efni standa til að láta þjálfarann sæta viðurlögum í máli þessu og áréttar mikilvægi þess að þjálfarar líkt og leikmenn liða sýni í orðum og í verki þá almennu háttvísi og framkomu sem samboðin er handknattleiksíþróttinni. Þá verður þjálfaranum einnig gerð refsing vegna þeirra atvika sem áttu sér stað að leik loknum og um er getið í agaskýrslu dómara

Telur aganefnd með hliðsjón af atvikum málsins að þriggja leikja bann séu hæfileg viðurlög vegna framangreindra brota,“ segir m.a. í úrskurði aganefndar HSÍ.


Grótta öðlaðist ekki sæti í átta liða úrslitum Olísdeildar og leikur þar af leiðandi ekki fleiri leiki á yfirstandadi leiktíð. Arnar Daði verður þar af leiðandi fjarverandi í þremur fyrstu leikjum Gróttu á Íslandsmótinu í upphafi næsta keppnistímabils.

Úrskurð aganefndar HSÍ má lesa hér en fleiri mál voru á dagskrá.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -