- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Arnar Freyr batt enda á átján ára bið KA

KA-menn fagna. Þeir leika í úrslitum Coca Cola-bikarsins á laugardaginn. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

KA komst í úrslit Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla í kvöld eftir sigur á Selfoss, 28:27, í magnþrungnum og framlengdum leik á Ásvöllum í kvöld. Arnar Freyr Ársælsson skoraði sigurmarkið tveimur sekúndum áður en framlengingunni lauk. Nokkrum sekúndum áður hafði Nicholas Satchwell, markvörður KA, varið skot Guðmundar Hólmars Helgasonar, Selfyssings. Þetta var sannkallaður bikarleikur.


Þar með er KA komið í úrslit bikarkeppninnar í fyrsta sinn í 18 ár.

Andstæðingurinn verður ríkjandi Íslands- og bikarmeistari Vals. Úrslitaleikurinnn verður klukkan 17 á laugardaginn.


Spennustigið í leiknum var mjög hátt frá upphafi til enda. Talsvert var um átök og pústra á kostnað leiksins.

Nicholas Satchwell varði allt hvað af tók í marki KA í kvöld og reyndist leikmönnum Selfoss óþægur ljár í þúfu. Hér freistar Satchwell þess að verja frá Richard Sæþóri Sigurðssyni. Mynd/J.L.Long


Fyrri hálfleikur var jafn og staðan 11:11, að honum loknum.
KA fór afar vel stað í síðari hálfleik og náði að byggja upp gott forskot með öflugum varnarleik og í framhaldi á frábærri markvörslu Nicholas Satchwell. Selfossliðið átti í mestu vandræðum með sóknarleik sinn. Mestur varð munurinn fimm mörk, 23:18. Allt stefndi í sigur KA-manna.


Sex og hálfri mínútu fyrir lok venjulegs leiktíma var munurinn fimm mörk, 23:18. Eftir það fór hver sóknin á fætur annarri í skrúfuna hjá KA-liðinu. Selfossliðið gekk á lagið og skoraði fimm síðustu mörk leiksins og knúði fram framlengingu.


Í framlengingunni sauð á keipum og sigurinn gat fallið hvorum megin sem var. Lukkan var með KA-liðinu sem skoraði tvö síðustu mörkin á síðustu mínútu framlengingar.

Óðinn Þór Ríkharðsson fór á kostum í kvöld og skoraði 12 mörk. Mynd/J.L.Long


Mörk Selfoss: Atli Ævar Ingólfsson 7, Einar Sverrisson 5, Guðmundur Hólmar Helgason 5/1, Ísak Gústafsson 3, Guðjón Baldur Ómarsson 3, Hergeir Grímsson 2, Hannes Höskuldsson 1, Richard Sæþór Sigurðsson 1.
Varin skot: Vilius Rasimas 7, 24,1%.

Mörk KA: Óðinn Þór Ríkharðsson 12/5, Allan Norðberg 4, Einar Birgir Stefánsson 3, Jón Heiðar Sigurðsson 3, Arnar Freyr Ársælsson 3, Patrekur Stefánsson 2, Ólafur Gústafson 1.
Varin skot: Nicholas Satchwell 18/1, 40,9%.

Handbolti.is er á Ásvöllum og fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -